Fara í efni
Fréttir

Huggulegheit í Hlíðarfjalli

Frá Strýtuskálanum er um klukkutíma gangur upp á brún Hlíðarfjalls. Göngufólk nýtir sér gjarnan lyfturnar á sumrin til að stytta förina upp. Mynd: Snæfríður Ingadóttir

Sjötta sumarið í röð eru lyftur í Hlíðarfjalli opnar fyrir göngu- og hjólafólk. Fjarkinn hefur gengið í júlí og Fjallkonan bætist við í ágúst.

Að sögn Hólmfríðar Söru Friðjónsdóttur, rekstrarstjóra Skíðastaða, hefur aðsóknin í fjallið verið minni í sumar en oft áður. Það skýrist mögulega að því að fresta þurfti sumaropnun um viku vegna mikillar bleyti í jarðvegi.

Huggulegheit í Hlíðarfjalli. Þegar veður leyfir kveikja starfsmenn bál við Strýtuskálann. 

Gott útsýni af fjallinu

Norðlenskt hljólafólk er farið að þekkja hjólagarðinn í Hlíðarfjalli nokkuð vel og göngufólk er í auknu mæli að átta sig á þeim möguleika að taka Fjarkann upp að Strýtu og ganga þaðan upp á topp.  Þegar upp á brún er komið er t.d. hægt að ganga að Haðarvörðu, Blátind, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul, en á góðviðrisdögum má oft sjá alla leið yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð.

Þegar blaðamaður var á ferð í fjallinu á tveimur jafnfljótum var spiluð lífleg tónlist í hátalarakerfinu og eldur logaði glatt í skál við Strýtuskálann, sem gerði það að verkum að mjög huggulegt var að tylla sér þar niður og snæða nesti. Já við reynum að hafa góða stemningu hér í fjallinu ef veðrið leyfir það, segir Hólmfríður Sara. Að hennar sögn koma alls ekki allir til þess að hjóla eða ganga, sumir koma bara til þess að njóta útsýnisins frá Strýtuskálanum yfir bæinn og taki svo lyftuna aftur niður.


Opnunartími fer eftir aðsókn og aðstæðum
Aðspurð að því hversu langt fram á haustið lyfturnar verði opnar segir Hólmfríður að Fjallkonan verði opin fram til 25. ágúst en Fjarkinn mun ganga til 8. september. Það fari svo eftir veðri og aðsókn hvort sumaropnunin verði eitthvað framengd vegna seinkunarinnar á opnun í júlí. Enn hafi ekki verið tekin ákvörðun hvað það varðar. Áhugasamir fylgist með á hlidarfjall.is

 

Miðar í lyfturnar eru seldir við afgreiðslunni við Fjarkann en eins er hægt að kaupa miða á vefsíðunni hlidarfjall.is. Salerni eru opin við Strýtuskálann.