Húðlæknastöðin opnar á Akureyri
Húðlæknastöðin mun opna stofu á Akureyri eftir áramótin. Þar verður boðið upp á ýmsar lýtahúðlækningar auk sjúkdómsmeðferða.
Húðlæknar frá Húðlæknastöðinni í Kópavogi voru lengi vel vanir að koma einu sinni í mánuði norður og hitta sjúklinga á Læknastofum Akureyrar. Að sögn Jennu Huldar Eysteinsdóttur, húðlæknis hjá Húðlæknastöðinni, lagðist þessi þjónusta af vegna þess að ferðalögin stóðu illa undir kostnaði og erfitt var að semja við Sjúkratryggingar Íslands. „En þar sem það er mikil eftirspurn eftir þjónustu okkar á þessu svæði og líka aukin eftirspurn eftir laser- og fegrunarmeðferðum, þá ákváðum við að opna útibú á Akureyri til að svara þessu kalli,“ segir Jenna.
Ýmsar fegrunarmeðferðir í boði
Húðlæknastöðin á Akureyri verður til húsa á Glerártorgi, í húsnæði Blóðbankans, sem er að færa sig um set. Segir Jenna að á Akureyri verði boðið upp á sömu þjónustu og fyrir sunnan, það er að segja bæði hefðbundnar húðlækningar og svo húðmeðferðir. Húðlæknar frá stöðinni í Kópavogi munu koma reglulega norður til að sinna sjúklingingum sem fengið hafa tilvísanir frá heimilislæknum. Eins verður ráðinn almennur læknir til starfa fyrir norðan sem þjálfaður verður upp til þess að sinna ráðgjöf og laser- og fegrunarmeðferðum. Þá verða húðvörur einnig til sölu á staðnum. Dæmi um meðferðir sem Húðlæknastöðin hefur verið að bjóða upp á fyrir sunnan eru háreyðingar, æðalaser, húðþétting, öralaser, húðflúreyðing og fylliefni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni og Húðvaktinni, en Húðvaktin býður upp á húðlækningar á netinu.