Fara í efni
Fréttir

HSN: Krefjandi fjárlög fram undan

Málefni Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eru áfram í brennidepli. Í dag birtist þriðji hluti umfjöllunar og viðtals við Jón Helga Björnsson, forstjóra stofnunarinnar.

Rekstur HSN var jákvæður á árinu 2022, en það var að hluta til vegna aukafjárveitinga til að rétta reksturinn af og var stofnunin skuldlaus í upphafi árs 2023 og ekki í neinum rekstrarvanda. Hann segir hins vegar að almennt séð séu allar heilbrigðisstofnanir með mjög þungan rekstur á þessu ári.

„Heilbrigðisstofnun Norðurlands er með tæplega 300 milljóna króna halla á þessu ári, sem er bæði út af launabreytingum og verðbólgu, kannski það stærsta í þessu, og svo veikindakostnaði, en ég hygg að það sé samt hvað minnsti vandinn hlutfallslega miðað við aðrar heilbrigðisstofnanir. Stofnunin hefur í gegnum tíðina verið frekar íhaldssöm í fjármálum og verið venjulega nálægt núllinu.“

Halli ekki mikill í ljósi aðstæðna

Heildarvelta HSN á þessu ári stefnir í að vera nálægt tíu milljörðum króna og líklegur rekstrarhalli því rétt innan við 3% miðað við þessar tölur. Umfang starfseminnar er mikið, svæðið stórt og má segja að halli upp á tæplega 3% sé ef til vill ekki svo mikið í ljósi aðstæðna. Starfssvæði HSN nær alveg frá Þórshöfn vestur að Blönduósi og um 700 manns starfa hjá stofnuninni.

„Við horfum svo á þessi fjárlög sem núna eru og gerum okkur grein fyrir því að þau eru krefjandi, bara fyrir alla. Það er ekki mikið af aukafjármunum sem settir eru inn í heilbrigðisþjónustuna þannig að við erum ekki fær um að auka starfsemina mikið á þessu ári og þurfum að vera aðhaldssöm.“

Flókið að hagræða við mikið álag

Þegar rætt er um rekstrarkostnað, halla og hugsanlega hagræðingu kemur auðvitað um leið upp í hugann hvort hagræðingarkrafa, ef slík kæmi fram, myndi einfaldlega þýða að heilbrigðisstofnun þyrfti að brjóta lög um skyldur við íbúana til að geta sinnt slíkri kröfu.

Jón Helgi benti á það fyrr í samtalinu að breytingarnar sem gerðar voru á Heilsugæslustöðinni á Akureyri í haust hafi verið skipulagslegs eðlis, en ekki gerðar vegna hagræðingarkröfu.

„Reyndar verður maður að viðurkenna líka að ef maður stæði frammi fyrir því að þurfa virkilega að hagræða, í kjölfarið á því, þá óttast maður hvaða áhrif það hefði á starfsmannahópinn. Núna vorum við bara að gera skipulagsbreytingu sem heppnaðist ekki vel af okkar hálfu og við gerum okkur fyllilega grein fyrir að við hefðum getað staðið betur að, en ef maður þyrfti virkilega að hagræða um 3% á öllu starfssvæði í þessari pressu sem er að manna, það er auðvitað eitthvað sem við værum mjög stressuð út af. Það er flókið að hagræða við svona mikið álag.“

Stjórnun aldrei áfallalaus

En hvað þá með lögbundnar skyldur við íbúana?

„Já, þetta rekst stundum á. En auðvitað er það þannig að maður finnur til ábyrgðar sinnar, að þegar manni misheppnast eitthvað eins og í þessu þá er stutt í að mönnun bregðist, og það er rosalega dýrt. Þannig að maður þarf að vanda sig og þetta er aldrei áfallalaust, svona stjórnun. Ég ætla ekki að draga úr þeirri ábyrgð sem við höfum.“

Jón Helgi svarar því játandi að ný stöð, breytt og betri aðstaða og starfsumhverfi geti auðveldað mönnun og bætt starfsanda.

„Já, ég vil segja það að þessi bætta starfsaðstaða sem er loksins að verða að veruleika og við erum búin að berjast fyrir í ein sex ár, hún er lykill að framtíðarmönnun. Að fólk hafi prófessíónal vinnuaðstöðu sem er með gott flæði, ég held að það sé lykillinn að því að manna til framtíðar. En menn geta náttúrlega haft flott húsnæði en engan mann í því. Það þarf að vanda sig þannig að fólk vilji vera hérna við störf. Það er það sem við höfum einsett okkur að gera saman, að reyna að hafa þetta góðan vinnustað þar sem fólki líður vel. Vissulega eru gerðar miklar kröfur til fólks í heilsugæslu og það verður aldrei létt að vinna þessi störf,“ segir Jón Helgi.

Vert er að nefna að frá því að HSN tók við heilsugæslunni á Akureyri 2014 hefur stöðugildum fjölgað úr 55 í 93 eða um 68%. En auðvitað hefur verkefnunum fjölgað á sama tíma.

Margþætt áhrif heimsfaraldursins

Eftirstöðvar heimsfaraldursins eru enn til staðar og eiga mögulega sinn þátt í því að gera stjórnun heilbrigðisstofnana erfiðari en ella.

„Það hefur margþætt áhrif. Í fyrsta lagi eru mjög mikil veikindi hjá starfsfólki. Það eru hátt í 10% á síðastliðnu ári og ég held að það verði í kringum 9% á þessu ári,“ segir Jón Helgi um það hvernig álagið í heimsfaraldrinum hefur enn áhrif á stjórnun og mönnun heilbrigðisstofnana.

„Þetta er kannski hluti af þessari uppákomu núna sem hefur áhrif á stjórnun. Það tók í rauninni allan kraft stjórnenda alls staðar, að fara í gegnum skaflinn, þannig að stjórnun sem snéri að því að taka á einhverjum málum, ræða við einhvern um eitthvað sem var í ólagi og koma því í lag, henni var bara sleppt, einfaldlega af því að menn höfðu ekki orku í það. Þá situr maður seinna uppi með einhver vandamál sem hafa grafið um sig, maður áttaði sig ekki á og tókst ekki á við. Þannig að ég held að það séu mjög margvísleg áhrif af þessu.“