HS Orka vill kaupa Fallorku - ekki til sölu
HS Orka óskaði seint á síðasta ári eftir formlegum viðræðum við eigendur Fallorku, dótturfélags Norðurorku, um hugsanleg kaup á fyrirtækinu, að hluta eða í heild. Bæjarráð Akureyrar samþykkti í morgun að ekki væri tímabært að ræða hugsanlega sölu.
Fram kom í bréfi Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóri HS Orku, til Akureyrarbæjar í nóvember á síðasta ári, að um sumarið hefðu farið fram óformleg samtöl við forsvarsmenn Fallorku og bæjarstjórann á Akureyri um hugsanleg kaup, að hluta eða í heild og rætt um verkefni og hugsanlega samlegð í rekstri sameinaðs félags.
„Fjallað var um uppbyggingu atvinnustarfsemi samhliða auðlindanýtingu áþekkt því sem þróast hefur á virkjunarsvæðum HS Orku í Auðlindagarði á Reykjanesi. Við þær aðstæður sem nú eru á orkumarkaði, með dalandi orkunotkun, hefur verið og er unnið markvisst að því að efla Auðlindagarð á Reykjanessvæðinu og gæti miðlun þekkingar og reynslu HS Orku á þessu sviði nýst við uppbyggingarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu.“
Tómas Már kvaðst í bréfinu sjá tækifæri í sölu- og markaðsstarfi félaganna saman, „þau yrði betur í stakk búin til að efla þjónustu við stóran hóp viðskiptavina og saman stæðu þau sterkar við að afla nýrra viðskipta. HS Orka hefur samið um og stjórnar framleiðslu margra smærri vatnsaflsvirkjana og hámarkar verðmæti framleiðsu þeirra á markaði, þekking sem gæti nýst allri framleiðslu félaganna.“
Tómas sagðist telja áhugavert að halda áfram starfi Fallorku við að þróa þá virkjunarkosti sem félagið hefur rannsóknarleyfi fyrir og að meta önnur tækifæri á orkusviði sem fyrirtækið hefur talið álitleg eða eru til staðar á Eyjafjarðarsvæðinu.
HS Orka er í einkaeigu, með höfuðstöðvar í Grindavík, og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga helming í félaginu á móti sænska fyrirtækinu Magma Energy Sweden A.B. Félagið starfrækir jarðvarmavirkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi.
Fallorka er að fullu í eigu Norðurorku, sem rekur rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu á Akureyri og víðar á Eyjafjarðarsvæðinu. Norðurorka er í eigu sex sveitarfélaga en Akureyrarbær á rúmlega 98% í félaginu.
Fallorka var stofnuð 2002. Fyrsta verkefnið var bygging tveggja vatnsaflsvirkjana í Djúpadalsá í Eyjafirði, árið 2018 keypti félagið Glerárvirkjun I og sama ár lauk félagið byggingu Glerárvirkjunar II, í Glerárdal ofan Akureyrar. Allar þessar fjórar virkjanir eru tengdar beint inn á dreifikerfi Norðurorku á Akureyri.