Fara í efni
Fréttir

Hræðilegt ástand í LA – flúðu borgina

Útsýnið af skólalóð Kaliforníuháskóla í Los Angeles, UCLA, síðasta fimmtudag. Mynd: Sveinn Margeir Hauksson.

„Þetta ástand er auðvitað alveg ömurlegt. Það er hræðilegt að fylgjast með fréttum,“ segir Sveinn Margeir Hauksson við Akureyri.net en hann stundar nám í Los Angeles á vesturströnd Bandaríkjanna. 

Hörmungarnar í Los Angeles-sýslu hafa varla farið framhjá nokkrum manni. Gróðureldar hafa geisað á svæðinu í tæpa viku, í morgun var staðfest að 24 væru látnir og a.m.k. 16 saknað, um 200.000 manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og tjón á mannvirkjum er gríðarlegt; mörg þúsund hús eru rústir einar.

  • Dalvíkingurinn Sveinn Margeir, kunnur knattspyrnumaður með KA síðustu ár, hóf nám í haust við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, UCLA, og leikur með skólaliðinu. Unnusta hans, Akureyringurinn Bjarney Sara Bjarnadóttir, stundar einnig nám í borginni.
  • Ástandið er lang verst á Palisades svæðinu, stóra litaða svæðinu á kortinu sem er af vef dagblaðsins Los Angeles Times. Íbúum á appelsínugula svæðinu var gert að yfirgefa heimili sín og fólk sem búsett er á gulu svæðunum er í viðbragðsstöðu.
  • Rauði hringurinn er dreginn um háskólasvæði UCLA í Westwood hverfinu. Eldarnir hafa færst nær háskólasvæðinu um helgina.

Sveinn Margeir og Bjarney Sara yfirgáfu Los Angeles á föstudaginn ásamt öðru pari að norðan, Helenu Halldórsdóttur og Tómasi Dan Halldórssyni. Þau óku til San Diego, sem er 180 km sunnar við Kyrrahafsströndina og hugðust verja helginni þar en Sveinn Margeir segir nú að þau dvelji a.m.k. tvo daga til viðbótar í borginni.

Háskólasvæðið er ekki langt frá Palisades eins og sjá má á kortinu. „Eldurinn er ekki kominn í okkar hverfi – Westwood – en fyrir helgi sáum  við eldana vel frá skólanum og svæðinu þar í kring,“ sagði Sveinn Margeir.

Eldarnir hafa færst nær háskólasvæðinu um helgina, „allir skólafélagar mínir og liðsfélagar eru farnir af háskólasvæðinu nema einn. Hann segir að svæðið sé algjör draugabær núna. Skólinn hefur svo gefið út að fjarkennsla verði út næstu viku og liðið æfir ekkert,“ segir Sveinn Margeir við Akureyri.net. Hann kveðst hafa heyrt að áhersla sé lögð á að verja háskólasvæðið og hið fræga Getty safn, sem er örlítið nær Palisades. 

Á La Jolla Beach í San Diego eftir komuna þangað í gær. Frá vinstri: Helena Halldórsdóttir, Tómas Dan Halldórsson, Bjarney Sara Bjarnadóttir og Sveinn Margeir Hauksson.

Íslendingunum ungu er vitaskuld mjög brugðið vegna hamfaranna. „Fólk er að deyja, heil hverfi að brenna til grunna og litlar líkur á að eldarnir séu að hætta. Liðsfélagi minn sendi mér til dæmis myndband úr hverfinu sínu þar sem ekkert stóð eftir nema stromparnir á húsunum. Núna vonumst við bara til þess að ástandið fari að batna og hugsum til þeirra sem hafa misst heimili sín og ástvini,“ segir Sveinn Margeir Hauksson.