Fara í efni
Fréttir

Horfnar þrengingar enn og aftur

Inga Dagný Eydal, íbúi í Holtahverfi norðan Glerár, sendi Akureyri.net eftirfarandi til birtingar:

Opið bréf til skipulagsyfirvalda og bæjarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar

Ég er alin upp við það að Akureyri sé heimsins besti staður. Mér þykir afar vænt um bæinn minn og tel mig að mörgu leyti heppna að hafa alist hér upp, hafa stundað hér nám og geta liðið vel. Ég vil framgang bæjarins sem bestan og mestan og hef væntingar um það að hér eigi að vera gott að vera. Öryggi, friðsæld, nálægð við náttúru, góðir skólar, samgöngur, grænar áherslur og góð heilbrigðisþjónusta eru nokkur atriði sem mér finnast skipta miklu máli. Möguleikar á atvinnu og húsnæði vega þó kannski þyngst. Í því skyni þarf að byggja ný hverfi, og þá kem að erindi þessa bréfs.

Ég er íbúi í Holtahverfi utan Glerár. Holtahverfið lætur lítið yfir sér þótt það sé ekki nýtt hverfi,- afmarkast af Hörgárbraut vestan megin og Krosssanesbraut austan megin, tvær stórar umferðaræðar sem liggja inn og út úr bænum. Í hverfinu er leikskóli en ekki grunnskóli og sækja börn hverfisins Glerárskóla. Hörgárbrautin hefur reynst erfiður farartálmi og slysavaldur en 2009 voru gerð undirgöng á einum stað undir hana og reyndar verið uppi þrýstingur um að gera fleiri en Akureyrarbær ekki talið möguleika á því. Þar eru því gangbrautarljós á nokkrum stöðum og hraðamyndavélar sem eru ætlað til að skapa öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Eina gangbrautin yfir Krossanesbrautina eins og er eða öllu heldur hvar hún hugsanlega gæti verið ... ef hún yrði að veruleika, skrifar Inga Eydal með þessari mynd.

Krossanesbrautin hefur sömuleiðis borið mikla umferð og þunga en þar eru engar gangbrautir, engar hraðahindranir, engin umferðarljós og yfirleitt ekkert sem hægir á umferð frá Hlíðarbraut neðan við nýju Húsasmiðjuna og niður að Glerá. Enda vinsælt af þeim sem keyra flutningabíla og aðra þungaflutninga að keyra brautina.

Þegar ég flutti í hverfið fyrir nokkrum árum vissi ég auðvitað að á Krossanesbraut væri þung umferð og velti því ekki sérstaklega fyrir mér enda gatan í útjaðri byggðar og því að einhverju leyti eðlilegt að þungaflutningar færu um hana.

Svo kom að því að kynnt var til sögunnar nýtt deiliskipulag og breyting á Holtahverfi. Nú var ætlunin að byggja austan brautarinnar sem við það myndi liggja í gegnum íbúðahverfi og börnum hverfisins þá ætlað að fara yfir bæði Krossanesbraut og Hörgárbraut á leið til skóla.

Íbúar hverfisins alls eiga þó að geta vel við unað eða hvað?. Samkvæmt deiliskipulagi á að lækka hámarkshraða í 30 km./klst., þrengingar á að gera, gangbrautir sömuleiðis og vel á að huga að öryggi gangandi vegfaranda. Gróðursetja á tré meðfram Krossanesbraut auk þess sem lækkuðum hámarkshraða er ætlað að draga úr umferðarhávaða í húsum beggja vegna brautar.

Ekkert af þessu hefur þó komist í framkvæmd. Einhver hús eru nú langt komin í nýja hverfinu, önnur skemmra á veg komin og nú þegar er flutt inn í hluta húsanna. Byggingaframkvæmdum fylgir auðvitað mikið rask, sprengingar, fleygun bergs, moldryk og flutningar í hverfinu okkar. Við því er lítið að gera sé reglum fylgt, en umferðarmálin hafa valdið íbúum mun meiri áhyggjum.

Hámarkshraði hefur raunar verið lækkaður í 30 km. og í stað hraðahindrana hafa verið settar upp lausar þrengingar sem hafa að einhverju leyti dugað til að draga úr mesta hraðanum, þótt þær séu ekki framtíðarlausn, -á meðan þær fá að vera. Með vissu millibili hafa þær horfið, einhverjum eru þær greinilega þyrnar í augum og skipulagsyfirvöld virðast láta óátalið að þær séu látnar hverfa. Eða vita ekki hver tók þær. Að minnsta kosti fást engin svör um það hvers vegna þær fara og hvað eigi að koma í staðinn. Hraðinn rýkur upp að bragði og allt fer í sama horfið. Athugasemdakerfi Akureyrarbæjar gleypir athugasemdirnar okkar án þess að veita nein svör og einhvern veginn virðist litið á fyrirspurnirnar sem hálfgerð leiðindi. Og það er auðvitað fúlt að láta spilla fyrir sér vinnudeginum með óþægilegum spurningum,- eða hvað? Fjölmiðlar hafa reyndar vakið athygli á málinu og fengið svör um að deiliskipulag skuli ráða, - sjá hér: https://www.akureyri.net/is/frettir/munu-hamla-um-krossanesbrautina?

Gallinn er bara sá að þessar spurningar og athugasemdir varða daglegt líf, öryggi og heilsu þeirra sem byggja Holtahverfi og einnig íbúa við Hörgárbraut og Undirhlíð. Framfarir missa marks þegar þær valda meiri háttar óþægindum eða jafnvel skaða fyrir íbúana.

Nú er hafin vinna við Móahverfi, hinum megin í Glerárhverfi og íbúum boðið að vera á póstlista og fylgjast með framkvæmdunum. Kannski þarf enginn þar að reyna við ginnungagap athugasemdakerfisins og allt uppi þar á borðum og það er auðvitað alltaf best.

Ég vitna í samþykkt deiliskipulag Holtahverfis nyrðra: „Að draga úr umferðarhraða og fækka stórum bílum á Krossanesbraut, getur haft margvísleg áhrif á heilsu fólks, meðal annars með minni áhættu á umferðaróhöppum, minni umferðarhávaða og loftmengun“.

Ennfremur: „Umferð þyngri farartækja verður beint af Krossanesbraut og á þjóðveg nr.1 Hörgárbraut þar sem allir þungaflutningar eiga að fara í gegnum bæinn sem og önnur gegnumstreymisumferð“ ... “Krossanesbraut verður 30 km. gata á milli þessara gatnamóta“ ... “Ásýnd og götumynd Krossanesbrautar verður bætt með nýrri byggð að norðan og götutrjám ásamt nokkrum þrengingum. Nokkrar nýjar gangbrautir verða einnig settar upp á Krossanesbraut til að auðvelda gangandi vegfarendum að komast frá nýju byggðinni og að verslun og skóla“.

Nú skora ég á skipulagsyfirvöld og kjörna fulltrúa Akureyrarbæjar að svara íbúum Holtahverfis varðandi umferðarmál og hvenær og hvernig að ofangreindum breytingum verður staðið? Er einhver breyting frá samþykktu deiliskipulagi á áherslum varðandi hverfið og Krossanesbrautina? Af hverju fá ekki hraðahindranir/þrengingar að vera í friði?

Meðfylgjandi mynd sýnir einu gangbrautina yfir Krossanesbrautina eins og er eða öllu heldur hvar hún hugsanlega gæti verið ... ef hún yrði að veruleika.

Með allra bestum kveðjum

Inga Dagný Eydal.