Fara í efni
Fréttir

„Hörðustu naglarnir geta ekki meira“

Skemmdir eru víða miklar í Grindavík eftir jarðskjálftana. Ljósmynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson

Akureyringar hafa átt það til að flytja til Grindavíkur og öfugt, meðal annars í tengslum við íþróttaiðkun. Mest í kringum fótboltann, en einnig körfubolta. Akureyri.net tók púlsinn á nokkrum Akureyringum sem ýmist búa og starfa í Grindavík eða eiga þangað tengsl og upplifðu rýmingu bæjarins. Púlsinn var nokkuð hár og engin furða.

„Þetta er hræðilegur tími“

Orri Hjaltalín er Akureyringur, Þórsari sem býr í Grindavík og starfar þar sem vallarstjóri á knattspyrnuvellinum og við knattspyrnuþjálfun. Fyrsta símtal blaðamanns til Orra kom á óheppilegum tíma því í sömu andrá var hann á leið úr húsi til að taka þátt í móti í pílukasti. Grindvíkingar hafa í gegnum tíðina verið þekktir fyrir góða pílukastara og þeir fjölmenntu á Bullseye í Reykjavík á þriðjudagskvöldið til að keppa í pílukasti. Þetta er hræðilegur tími,sagði Orri við fyrsta símtal og var þá að vísa til þess að hann var að tygja sig af stað fyrir pílumótið. Þessi orð eru þó um leið lýsandi fyrir þá stöðu sem hann og aðrir Grindvíkingar eru í þessa dagana. Hræðilegur tími.

En Grindvíkingar halda áfram að lifa lífinu og reyna áfram að huga að áhugamálum og dægradvöl eins og kostur er og má segja að slíkt sé jafnvel enn mikilvægara þessa dagana en ella, einmitt vegna þess sem gengur á í heimabæ þeirra. Gott og nauðsynlegt að hafa eitthvað til að dreifa huganum og forðast að kaffæra sig í hugsunum um ástandið, hætturnar og horfurnar.

Orri Hjaltalín: „Maður hugsaði lítið, var bara hræddur og í einhverri örvæntingu.“  

Fólk er kvíðið

Orri segir erfitt að lýsa því hvað fólk er að hugsa þessa dagana, en segir að fólk sé kvíðið. Allir séu á fullu við að finna sér húsnæði á sama tíma og fólk viti ekki hvernig ástandið er á húsum þess í Grindavík og hvað verður um þau, hvernig málin muni leysast.

Orri var við þjálfun í nýju knatthúsi Grindvíkinga síðdegis á föstudag. Þegar ég fer á föstudaginn er ég nýbúinn að þjálfa. Klukkan er um sjö. Ég les bara alla miðla og það er engin þörf á að rýma og ekki neitt. Þannig að ég var mjög lítið stressaður, en ákvað samt að byrja að setja aðeins ofan í tösku,segir Orri. Hann man þá eftir því að það vantaði bensín á bílinn, fer og fyllir á hann og heldur aftur heim. Ég er nýkominn inn í íbúðina og þá koma tveir risaskjálftar, hvor ofan í annan. Ég fékk bara skápinn í forstofunni í fangið á mér. Ég þurfti að ýta honum til baka og þá tók ég bara töskuna og hljóp út.Það var því mjög lítið sem hann tók með sér þegar hann ákvað að yfirgefa bæinn.

Maður hugsaði lítið, var bara hræddur og í einhverri örvæntingu,segir Orri spurður um hvað hafi farið í gegnum hugann við brottförina og hvort hann hafi velt fyrir sér endurkomu. En svo kannski tveimur dögum seinna, á sunnudag, mánudag, þá fór maður kannski aðeins að átta sig á þessu, þessar hugsanir eru farnar að lauma sér inn núna. Ég hugsaði kannski lítið út í þetta á föstudag eða laugardag, þá hélt ég að þetta væru bara ein eða tvær nætur.

Ljósmynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson

Ætlar beint aftur heim til Grindavíkur

Orri er Akureyringur eins og áður kom fram, en hefur búið lengi í Grindavík og hefur sterkar taugar þangað. Hann er fljótur til svars þegar hann er spurður hvort hann hugsi sér að eiga áfram heima í Grindavík eða hvort hann sé farinn að huga að framtíðarheimili annars staðar.

Ég fer alltaf bara beint heim í Grindavík. Þar er allt mitt. Ég er ekki tilbúinn að gefast upp strax.Þetta segir hann af sannfæringu þó hann sé ekki fæddur og uppalinn í Grindavík. Það sýnir bara hvað það er gott að búa þarna.

Spurður um það hvað hann sér fyrir sér og hvernig hann hugsar framhaldið segir Orri: Besta mögulega niðurstaða myndi ég segja að væri kannski mánuður, en það kæmi mér ekki á óvart þótt þeir yrðu tveir, eða þrír eða fjórir. Maður bara veit ekkert fyrr en þetta gos verður komið af stað.

Óvissan er erfið á meðan beðið er eftir gosi, hvort það verður og hvar. Já, maður fer bara úr einu vandamáli í annað. Það er miklu betra að fá eldgos en þessa skjálfta. En ég er ekki kominn með íbúð eða eitt eða neitt og það er sú óvissa sem er líka að hrella mann. Ég hef alveg næga gistingu þannig, en maður vill ekki vera að troða sér inn á fólk til lengdar,segir Orri Hjaltalín.

Enn sem komið er virðist húsið hans hafa sloppið við skemmdir, en hann segir ekki þurfa að fara langt því skammt frá séu húseignir sem séu ónýtar.

Ljósmynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson

Á kafi við að bjarga verðmætum

Akureyri.net heyrði einnig í Jóhanni Helgasyni, fyrrum leikmanni með knattspyrnuliðum KA og Grindavíkur. Jóhann býr í Grindavík og starfar hjá Vísi. Hann hafði því miður ekki tíma fyrir spjall því í hans fyrirtæki var allt á hvolfi í vinnu við að bjarga verðmætum á einn veg eða annan.

Jóhann benti á Orra Hjaltalín, en þegar blaðamaður upplýsti hann um að nú þegar væri búið að ræða við Orra stóð ekki á svari frá Jóhanni: Ég get ekki toppað það sem Orri segir.

Gættu barnabarnanna

Hjónin Árni Óðinsson og Laufey G. Baldursdóttir voru stödd í Grindavík í liðinni viku. Sonur þeirra, tengdadóttir og barnabörn búa nefnilega í Grindavík. Óðinn Árnason er enn einn Akureyringurinn sem spilað hefur fótbolta í Grindavík. Árni og Laufey dvöldu í Grindavík í nokkra daga að gæta barnabarnanna á meðan Óðinn og Erna Rún Magnúsdóttir, kona hans, brugðu sér til Danmerkur. Erna Rún tengir Akureyri og Grindavík líka saman í gegnum íþróttirnar því hún hefur spilað körfubolta bæði með Grindavík og Þór.

Hjónin Árni Óðinsson og Laufey Baldursdóttir með sínu fólki í Grindavík á góðum degi. Frá vinstri: Hjörtfríður Óðinsdóttir, Laufey Baldursdóttir, Erna Rún Magnúsdóttir, Óðinn Árnason, Árni Óðinsson og Árni Jakob Óðinsson.

Akureyri.net heyrði hljóðið í Árna núna í vikunni eftir að hann kominn norður og farinn að sinna verkefnum hér. Árni og Laufey fóru til Grindavíkur á miðvikudegi og segir Árni að strax fyrstu nóttina hafi byrjað mjög miklir jarðskjálftar, að minnsta kosti eins og þau mátu það. Síðar í samtalinu kemur svo reyndar upp að minni skjálftar á fimmtudeginum sem gerðu þeim órótt virtust vera eitthvað sem Grindvíkingar væru á vissan hátt orðnir vanir og kipptu sér ekki mikið upp við.

Nóttina á eftir var allt til friðs,segir Árni. Það var ótrúlega gott aðfaranótt föstudagsins. Krakkarnir fara í skóla og við fórum í líkamsrækt þarna og í sund.Það vill nefnilega svo til að tengdadóttirin, Erna Rún, rekur litla líkamsræktarstöð í Grindavík. Á meðan þau voru í sundi komu nokkuð stórir skjálftar sem fóru reyndar framhjá þeim, mögulega eitthvað öðruvísi að vera ofan í lauginni en inni í húsi þegar skjálftar ríða yfir.

Mikið í gangi síðdegis á föstudegi

Árni bregður sér síðan til Keflavíkur í hádeginu, en þegar hann kemur til baka upplýsir Laufey hann um að þá hafi mikið verið í gangi. Þau skreppa til Reykjavíkur og krakkarnir fara á íþróttaæfingar. Um fimmleytið koma þau til baka og þá kemur mikill skjálfti í þann mund sem þau stíga út úr bílnum.

Yngsta barnabarnið var í Nettó að fylgjast með þegar vörur hrundu úr hillum í skjálftunum. Hljómar jafnvel eins og dálítið sjónarspil og sport, en Árna leist ekki á blikuna. Ég hringdi í drenginn og bað hann fyrir alla muni að koma heim. Þegar hann kemur heim, 11 ára gamall á hjóli, er hann gjörsamlega náfölur. Þá upplifði hann jarðskjálftann öðruvísi, greinilega áttaði sig á að þetta var ekki alveg eins og hutirnir eiga að vera.

Ljósmynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson

Þeim varð fljótlega ljóst að þessi hrina var ekki að fara að ganga yfir og almannavarnir lýstu yfir hættuástandi á svipuðum tíma og börnin voru komin heim aftur. Árni lýsti upplifuninni meðal annars þannig að þegar þau voru að taka saman föggur sínar hafi komið stór skjálfti. Hann hafi þá horft á næsta hús út um gluggann og það hafi hreinlega verið eins og að horfa á málverk hristast því bæði húsin voru á fleygiferð.

Ég held að við förum bara að fara,segir Árni þá við Laufeyju. Þau fara inn, taka saman dótið og undirbúa brottför. Elsta barnabarnið býr í Reykjavík, en æfir og spilar með Grindavík og var því í nýja knatthúsi þeirra Grindvíkinga á æfingu, hjá Orra Hjaltalín, vel að merkja. Æfingin hafði þá haldið áfram í gegnum mestu skjálftana, en svo var flautað af.

Bíll við bíl eftir Suðurstrandarveginum

Þetta var nokkrum tímum áður en rýming var fyrirskipuð, en fjöldi Grindvíkinga var þegar farinn af stað út úr bænum. Það voru rauð ljós eins langt og ég sá og þegar ég horfði í spegilinn voru framljós alla leiðina til Grindavíkur. Það voru bara allir að fara úr bænum þá, fannst manni. Ég var ekkert í rónni fyrr en við komum hjá Kleifarvatni,” segir Árni.

Þetta var að sjálfsögðu áhrifamikil og erfið upplifun. Ég myndi aldrei reyna að leika hetju í þessu sambandi. Ég var með kökkinn í hálsinum, gjörsamlega, skíthræddur, ekki kannski um sjálfan mig, en ég leit á mig sem ábyrgðaraðila fyrir börnin sem ég var að passa og einnig að einhverju leyti fólkið sem við hlupum frá.

Ljósmynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson

Fólk er að átta sig á stöðunni

Spurður um hugarástand fólksins í kringum hann segir Árni að svo mikið hafi verið um að vera hjá fólki við að koma sér í hús og fara til baka að ná í hluti að það hafi mögulega ekki enn gefið sér tíma til að setjast niður og átta sig á stöðunni og ræða hana sín á milli. Fyrst hélt fólk að það væri að fara í burtu í eina nótt, en svo áttar fólk sig á því að þetta gætu orðið einhverjir dagar eða vikur. Núna held ég að allir séu búnir að átta sig á að þetta verður í það minnsta einhverjir mánuðir. Ég held að fólk sé að átta sig á því.

Árni segir hans fólk bera sig ágætlega. En ég veit að það koma tímar sem fólk þarf að leggjast á öxlina á manni og skæla. Það er bara þannig.Hann upplifði það að fyrst eftir að þau komu á staðinn hafi fólk borið sig ágætlega, þetta hafi ekki verið stórmál. En sú brynja er algjörlega farin, þannig upplifði ég það. Það eru hörðustu naglarnir sem segja bara, ég get ekki meira.

Samheldni Grindvíkinga hefur verið umtöluð í gegnum þessar hörmungar. Samfélagið þarna er svo ótrúlegt. Bara það þegar við keyrum með krakkana, það greinilega vita allir allt um alla. Það var ólíklegasta fólk sem hringdi og spurði hvar við værum. Mér þótti vænt um það, þó við værum aðkomufólk þarna, en auðvitað vita margir hver við erum, með barnabörnin okkar þarna. Það gleymdist ekkert að hringja í þetta fólk, sem mér fannst bara notalegt.