Fara í efni
Fréttir

Höldur lendir milli skips og bryggju

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Starfsmönnum Hölds – Bílaleigu Akureyrar hefur fækkað um 60 frá síðustu áramótum. Þetta segir Steingrímur Birgisson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segir að faraldri kórónuveiru sé þar um að kenna en tekjufall bílaleigunnar er talið vera í kringum 35% á þessu ári. Höggið er þó ekki nægilega mikið til að hægt sé að nýta styrki stjórnvalda. „Við höfum ekki getað nýtt neina leið frá því í vor, hvorki uppsagnarstyrki né hlutabótaleið. Tekjufallið okkar er ekki nægilega mikið þótt það sé um 1,8 milljarðar, en „aðeins“ 32% þannig að við lendum í raun milli skips og bryggju,“ segir Steingrímur. Hann segir að höggið hafi verið mest í útleigu bifreiða. „Það er fyrst og fremst bílaleigan sem hefur hrunið en við erum sömuleiðis með bílasölu, dekkjaverkstæði, útleigu á fasteignum og bílaverkstæði. Þetta hefur áhrif á allt en hvergi eins mikið og í ferðaþjónustunni,“ segir Steingrímur í Morgunblaðinu.