Fréttir
Hlýtt í veðri og áfram búist við leysingum
02.07.2021 kl. 00:39
Vegurinn nokkru sunnan við Illugastaði í Fnjóskadal í gær; þarna fór enginn um nema fuglinn fljúgandi. Ljósmynd: Guðmundur Egill.
Búast má við áframhaldandi leysingum á Norðurlandi næstu daga vegna mikils hita. Gríðarlegir vatnavextir hafa verið í landshlutanum sem hafa valdið því að bæði vegir og brýr rofna. Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir hættustigi vegna vatnavaxta í ám og vötnum á svæðinu, í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra.
- Íbúar og vegfarendur eru beðnir um að vera ekki nálægt ám og vötnum sem eru í miklum vexti.
- Fólk á Akureyri er sérstaklega beðið um að vera ekki á ferðinni í kringum Glerá.
- Vegurinn við Þverá í Eyjafirði rofnaði í fyrrakvöld eins og Akureyri.net greindi frá – hér er hægt að lesa þá frétt. Á svæðinu er nú hjáleið yfir eldri brú, en einungis léttari umferð, mjólkurbíllinn þarf til dæmis að taka á sig lengri krók.
- Eyjafjarðarbraut eystri er lokuð á brúnni við Möðruvelli.
- Vegurinn innan við Illugastaði í Fnjóskadal hefur rofnað og er lokaður.
- Skemmdir eru við brúna yfir Fnjóska á móts við Illugastaði og hún lokuð vegna þessa.
- Mestu vatnavextir eru í Eyjafjarðará og Fnjóská og er fólk beðið um að fara varlega við árnar.
- Á heimasíðu Veðurstofu Íslands er áfram spáð miklum leysingum í hlýindum víða um land. Má því búast við áframhaldandi hárri vatnsstöðu og miklu rennsli í ám og lækjum, sér í lagi þar sem hlýtt er í veðri og snjór enn til fjalla. Ferðafólk er hvatt til að sýna aðgát við óbrúaðar ár á hálendinu.