Fara í efni
Fréttir

Hlutverk fundarstjóra að takmarka ræðutíma

Þegar Akureyri.net birti í gær frétt þar sem vitnað var í orð Önnu Júlíusdóttur, formanns Einingar-Iðju, um þátt hennar í fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar um væntanlegar breytingar á gjaldskrá leikskóla bæjarins – Slökkt á formanni Einingar-Iðju í miðri setningu | akureyri.net – óskaði miðillinn eftir viðbrögðum frá fulltrúum Akureyrarbæjar sem sátu fundinn. Ein þeirra var Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsuráðs, sem svaraði í morgun með eftirfarandi athugasemd:

Í greininni var vísað til fundar sem boðað var til þriðjudaginn 7. nóvember en tilgangur hans var að upplýsa foreldra leikskólabarna Akureyrarbæjar um breytingar á gjaldskrá leikskóla sem fyrirhugaðar eru frá og með 1. janúar 2024.

Eins og fram kemur í greininni þá þurfti fundarstjóri að grípa til þess ráðs að takmarka ræðutíma Önnu Júlíusdóttur, formanns Einingar-Iðju sem tók þátt í fundinum. Um 250 manns voru á fundinum, margir vildu komast að og fyrirspurnarlistinn orðinn langur. Það er hlutverk fundarstjóra að stuðla að því að sem flestir fái að spyrja og koma skoðunum sínum á framfæri og alvanalegt er að takmarka þurfi ræðutíma einstakra þátttakenda, sem varð tilfellið á þessum fundi. Fundarboðendum þykir leitt hvernig Anna upplifði þessa takmörkun sem var þrautalending að hálfu fundarstjóra.

Mikilvægt er að leiðrétta eftirfarandi fullyrðingu sem birtist í greininni:

„Það fyrsta sem ég frétti af þessu er að ung kona með þrjú börn, tvö í grunnskóla og eitt í leikskóla, hún þarf að koma barninu á leikskóla kl. 7:45 og vera til 16:15. Þessir 2,5 tímar munu kosta hana 60 þúsund krónur aukalega miðað við það sem hún er að borga í dag,“ segir Anna og spyr: „Er þetta gjaldfrjáls leikskóli?“

Fullyrðing Önnu um 60 þúsund króna hækkun á mánuði hjá móður byggir líklega á einhverjum misskilningi, því heildargjöld vegna eins barns í leikskóla með 8,5 klst. skólatíma og fullt fæði er 49.337 kr./mánuði. Þar af er fæðisgjald 11.387 kr. Næsta barn sem mögulega þarf að nýta frístund í grunnskólanum er með 50% afslátt af gjaldi fyrir hana og þriðja barnið væri með 100% afslátt af frístundagjaldi sé það einnig að nýta þá þjónustu.

Rétt er að fram komi að fræðslu- og lýðheilsusvið hefur sent könnun til foreldra leikskólabarna hjá Akureyrarbæ þar sem kallað er eftir upplifun þeirra og viðhorfum gagnvart fyrirhuguðum breytingum. Svör verða skoðuð og metin m.t.t. breytinganna. Gert verður mat á árangri verkefnisins að hálfu ári liðnu og þá m.a. kallað eftir upplifun og reynslu foreldra.