Fara í efni
Fréttir

Hljómsveit verður til – Bítlarnir

AF BÓKUM – 3

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Halldóra Birgisdóttir_ _ _

Bítlarnir - Hljómsveit verður til er grafísk skáldsaga eftir finnska rithöfundinn og teiknarann Mauri Kunnas sem kom fyrst út á Íslensku árið 2022. Konan hans Tarja hjálpar honum yfirleitt við að lita myndirnar í bókunum hans og í þetta skiptið var dóttir hans Jenna með. Kunnas er líklega þekktastur fyrir barnabækurnar sínar eins og t.d. Börnin á Hvuttahólum koma í bæinn, Víkingarnir koma og bækurnar um Olla, Polla og Alla. 
 
 
Bókin er nokkurn veginn sannleikanum samkvæm og fjallar um Bítlana frá 1940 til 1962. Það er aðeins farið inná bernskuárin en fókusinn er mestmegnis á fyrstu árum sveitarinnar. Í upphafi var það John Lennon sem stofnaði hljómsveitina Quarrymen, síðan bættust við Paul McCartney, George Harrison, Stuart Sutcliffe og Pete Best. Quarrymen urður svo Bítlarnir (The Beatles) árið 1960. Stuart hætti í bandinu 1961 hann vildi einbeita sér að því að vera myndlistarmaður og Ringo Starr gekk svo að lokum í bandið árið 1962 þegar Pete Best var rekinn. Eins og flestir vita slógu Bítlarnir alveg rækilega í gegn en þessi saga fjallar ekki um það. Þetta eru allt upplýsingar sem hægt er að lesa um í ótal bókum, munurinn hér er framsetningin og skáldaleyfið sem höfundurinn gefur sér. Hann hefur ótrúlega hæfileika til að taka gamla sögu og glæða hana nýju lífi með húmor og lifandi teikningum þar sem hugsað er út í hvert smáatriði.
 
Ég myndi alls ekki segja að bókin væri eingöngu fyrir aðdáendur Bítlana, þó það skemmi auðvitað ekki fyrir, heldur líka fyrir fólk sem hefur gaman af teiknimyndasögum, góðum húmor eða bara skemmtilegum bókum yfir höfuð.