Hlíðarskóli fær fjármagn til að bæta útisvæði

Töluvert hefur verið rætt um slæmar aðstæður fyrir nemendur Hlíðarskóla á útisvæðinu við skólann. Nemendur hafa upplifað ójöfnuð í samanburði við hina skólana í sveitarfélaginu, og Erla Margrét Hilmisdóttir, deildarstjóri og staðgengill skólastjóra sagði í samtali við Akureyri.net að nú væri langþráður draumur nemendanna um að fá kastala loksins að rætast.
Málið var rætt á bæjarstjórnarfundi unga fólksins í vikunni, og þá sagði Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi að búið væri að áætla 10 milljónir til skólalóðar Hlíðarskóla í framkvæmdaáætlun bæjarins, og það væri ákvörðun skólans hvað þau vildu nýta upphæðina í.
„Við erum búin að velja kastala fyrir krakkana,“ segir Erla Margrét. „Hann er reyndar ætlaður fyrir krakka upp að 13 ára aldri, en hann mun örugglega nýtast þeim eldri líka. Við erum mjög spennt fyrir að fá hann og reiknum með að hann verði tilbúinn næsta haust. “
„Krakkana langaði mest til þess að fá kastala og sparkvöll, en það verður að bíða og sjá hvort að sparkvöllurinn geti orðið að veruleika einhverntíman,“ segir Erla Margrét. Skólastjóri Hlíðarskóla, Valdimar Heiðar Valsson, var í viðtali á Akureyri.net fyrir ári síðan um útisvæðið, en þá höfðu nemendur fengið nóg og tóku það frumkvæði sjálf að safna fyrir nýjum leiktækjum við skólann.
Þessar myndir voru teknar á leiksvæðinu við Hlíðarskóla í Skjaldarvík í maí 2024. Mikið ánægjuefni er fyrir skólann að bærinn hafi hlustað á ákall nemenda og starfsfólks og lagt fjármagn í uppbyggingu svæðisins.