Hlíðarfjall er fleira en skíði og vatn
Hlíðarfjall hefur að geyma fleira en skíðasvæði og vantsból Akureyringa. Þar hefur aðstaða fyrir útivist að sumri til verið stórlega bætt á undanförnum árum og getur bæði göngu- og hjólreiðafólk fundið þar skemmtilegar leiðir. Hjólagarður Hlíðarfjalls var opnaður 7. júlí og verður opinn til 10. september.
Fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar að Fjallkonan, nýja stólalyftan, verði opin frá 29. júlí til 20. ágúst á laugardögum og sunnudögum kl. 10-15. Hjólafólk getur tekið hjólið með sér í fjarkann, en fyrir fótgangandi gildir lyftumiðinn fram og til baka ef vill. Ekki er hægt að taka með sér hjól í Fjallkonuna, en göngufólk getur farið upp með fjarkanum, gengið niður um 200 metra og tekið svo Fjallkonuna áfram upp. Við endastöð Fjallkonunnar er slóði til norðurs, Sneiðingurinn, þaðan sem er um 20-30 mínútna ganga upp á hæstu hæðir Hlíðarfjalls.
Fleiri gönguleiðir eru í boði og hjólabrautirnar sem Hlíðarfjall og Hjólreiðafélag Akureyrar bjóða upp á eru sex talsilns. Nánari upplýsingar um leiðir, hvenær opið er, verð og fleira er að finna í fréttinni á Akureyri.is.
Hver veit nema innan ekki langs tíma verði einnig hægt að bruna niður brekkurnar í sleðabraut í framhaldi af auglýsingu Akureyrarbæjar eftir hugmyndum og viljugum aðilum til að reka einhvers konar afþreyingu í fjallinu.
Á myndinni hér að neðan má sjá yfirlit um hinar ýmsu göngu- og hjólaleiðir í Hlíðarfjalli.
Hlíðarfjall, göngu- og hjólaleiðir. Mynd: Akureyri.is.