Fara í efni
Fréttir

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla í hverfum bæjarins

Hleðslustöð við Sundlaug Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Skilgreindir hafa verið 20 líklegir staðir sem gætu hentað fyrir hverfishleðslustöðvar að sögn Andra Teitssonar, formanns umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar. Þar má til dæmis nefna Bogann, Giljaskóla og Bónus í Naustahverfi.

Um ræðir samstarfsverkefni Akureyrarbæjar og Norðurorku og ætlunin að koma fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla í hverfum bæjarins. 

Andri segir markmiðin með þessari aðgerð meðal annars að bæta þjónustu við bæjarbúa og ferðamenn og draga úr þörf fyrir uppsetningu hleðslustöðva við heimahús, en þær hafi takmarkaða nýtingu og valdi álagi á raforkukerfið.

Stæðið við Giljaskóla er einn þeirra staða sem þykja henta fyrir hverfishleðslustöð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Næsta skref að útfæra nánar

Forsendur fyrir vali á staðsetningum eru í meginatriðum þrjár: Gott aðgengi að rafmagni, nóg pláss og helst tilbúið bílastæði og staður sem myndi henta mörgum. Varðandi staðsetningu væntanlegra stöðva segir Andri það sammerkt með þeim 20 stöðum sem skilgreindir hafi verið að þar standi fyrir dyrum framkvæmdir og mætti þá útbúa hleðslustöðvarnar í leiðinni.

„Nú þarf að útfæra þetta nánar og svo sennilega auglýsa eftir samstarfsaðilum, þ.e. orkufyrirtækjum sem vilja setja upp og reka stöðvar,“ segir Andri í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net.

Nákvæm útfærsla hefur ekki verið ákveðin, en það verður væntanlega eitthvað sem samið verður um við þau fyrirtæki sem vilja taka að sér rekstur slíkra stöðva hér. Hraðhleðslustöðvar eru til að mynda eingöngu fyrir „hreina“ rafbíla, en „venjulegar“ hleðslustöðvar henta bæði fyrir rafmagns- og blendingsbíla, að því gefnu að eigandi rafbílsins hafi tækifæri til að staldra við í 1-2 tíma á meðan hlaðið er, og bendir Andri á að hleðslustöðvar við Skógarböðin og Sundlaug Akureyrar séu gott dæmi um slíkt.