Fara í efni
Fréttir

Hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ

Jakobína Hjörvarsdóttir og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Mynd: HÍ.

Jakobína Hjörvarsdóttir, leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA í Bestu deildinni, tók í vikunni við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands. Jakobína lauk stúdentsprófi frá VMA í vor og hóf nú í haust nám í sjúkraþjálfun við HÍ. Sagt er frá afhendingu styrksins á vef VMA. Jakobína var ein af 34 styrkþegum í ár.

Jakobína, sem varð 19 ára í sumar, á nú þegar að baki 70 leiki í meistaraflokki með Þór/KA, þar af 52 leiki í efstu deild, auk samtals 25 landsleikja með U16, U17 og U19 landsliðum Íslands.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum vor og bárust sjóðnum alls 72 umsóknir. „Því var úr vöndu að ráða fyrir stjórn sjóðsins sem ákvað að veita 34 nýnemum við Háskóla Íslands styrk. Þeir koma úr 13 framhaldskólum og í hópi þeirra eru níu dúxar og semidúxar. Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og heildarupphæð styrkjanna er því tæpar 13 milljónir króna,“ segir á vef Háskóla Íslands.