Fara í efni
Fréttir

Hlaupamessa á milli kirkna á Akureyri

Andleg og líkamleg heilsa haldast í hendur, segir á heimasíðu Glerárkirkju, þar sem nýjung í helgihaldi kirkjunnar er kynnt. Sunnudaginn 25. ágúst verður 'Hlaupamessa', þar sem gestir hefja stundina á stuttri samveru í Akureyrarkirkju og leggja svo af stað í útihlaup á milli kirkna bæjarins. Í fréttinni segir að hvert og eitt geti farið á sínum hraða og lokið hlaupinu á sínum tíma, en í boði eru þrjár vegalengdir.
 
Lengsta hlaupið er 14 km, en þá er farið upp í Lögmannshlíðarkirkju, þaðan hjá Glerárkirkju og endað aftur hjá Akureyrarkirkju. Svo er hægt að fara 9 km hring þar sem hlaupið er að Glerárkirkju og aftur til baka. Stysti hringurinn er 4 km, en þá er hlaupið að Minjasafnskirkjunni og aftur til baka. Allir hlauparar enda hjá Akureyrarkirkju þar sem hægt verður að fá sér vatnssopa. 
 
 
 
Hlaupaleiðirnar. Mynd: Glerarkirkja.is
 

Nánari leiðarlýsing, fengin á vef Glerárkirkju:

14 km – Akureyrarkirkja Lögmannshlíðarkirkja Glerárkirkja  Akureyrarkirkja

Við förum upp Gilið og förum eftir Þingvallastræti þar til við komum að hringtorginu við Hlíðarfjallsveg. Þar förum við upp í áttina að Lögmannshlíðarkirkju og beygjum inn í hesthúsahverfið, förum fram hjá kirkjunni og áfram norður hlíðina í áttina að hverfinu við Lónsá. Við förum eftir nýja göngustígnum sem liggur meðfram þjóðveginum, niður Austursíðu, inn Bugðusíðu, að Glerárkirkju og að Borgarbraut.
Við förum niður Borgarbrautina, yfir Hlíðarbraut og niður að Glerárgötu. Við fylgjum Glerárgötu niður að Kaupvangsstræti og endum á planinu við Akureyrarkirkju.

9 km – Akureyrarkirkja – Glerárkirkja – Akureyrarkirkja

Við förum upp Gilið og förum eftir Þingvallastræti þar til við komum að hringtorginu við Hlíðarfjallsveg. Förum eftir göngustígnum meðfram Hlíðarbraut framhjá Glerárkirkju og að Austursíðu, förum þar upp og beygjum inn Bugðusíðu sem við fylgjum að Borgarbraut.
Við förum niður Borgarbrautina, yfir Hlíðarbraut og niður að Glerárgötu. Við fylgjum Glerárgötu niður að Kaupvangsstræti og endum á planinu við Akureyrarkirkju.

4 km – Akureyrarkirkja Minjasafnskirkjan Akureyrarkirkja

Förum upp Eyrarlandsveginn, fylgjum honum framhjá Listigarðinum og beygjum niður Spítalastíg. Förum eftir Aðalstræti að Minjasafnskirkjunni, þaðan í átt að Skautahöllinni og niður á göngustíginn sem liggur meðfram Drottningarbraut. Fylgjum stígnum í átt að miðbænum þar til við getum beygt upp í Kaupvangsstræti og endum á planinu við Akureyrarkirkju.