Fara í efni
Fréttir

Hlæja allir og hlaupa um bæinn á öskudaginn?

Öskudagsfjör á Akureyri 2017. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Öskudagurinn er í næstu viku og þá er jafnan líf og fjör á Akureyri. „Hlaupa lítil börn um bæinn, og bera poka til og frá,“ segir í textanum góða, en því má velta fyrir sér hvort hægt verði að hlaupa um bæinn að þessu sinni. Verður hægt að fjölmenna í fyrirtæki, syngja og þiggja sælgæti eða annað glaðning fyrir? Hvað með sóttvarnir?

Vegna Covid-19 hafa Almannavarnir, Embætti landlæknis og landssamtökin Heimili og skóli sent frá sér tilmæli um óhefðbundinn öskudag að þessu sinni, að því er fram kemur á heimasíðu Akureyrarbæjar. Tilmælin felast fyrst og fremst í því að fólk vari varlega, virði tveggja metra regluna, þvoi sér um hendur og forðist óþarfa snertingar. Einnig er minnt á að allir verði að sjálfsögðu að virða fjöldatakmarkanir og annað sem gildir um þessar mundir

Í tilkynningu frá almannavörnum, Embætti landlæknis og Heimili og skóla segir:

Gerum okkur dagamun í nærumhverfinu
Höldum upp á daginn á heimavelli, í skólanum, frístundarheimilinu eða félagsmiðstöðinni.

Mætum í búningum
Brjótum upp á hversdagsleikann með því að mæta öll í búningum. Ungir sem aldnir.

Endurvekjum gamlar hefðir
Nú er tækifæri að endurvekja gamlar öskudagshefðir eins og að búa til öskudagspoka og slá köttinn úr tunnunni. Með sóttvarnir í huga að sjálfsögðu.

Syngjum fyrir sælgæti
Ef hefð er fyrir því að ganga á milli húsa eða fyrirtækja í hverfinu væri upplagt að foreldrafélög tækju upp á sína arma að halda utan um hvar sé hægt að koma og syngja fyrir nammi. Athugið að gæta fyllstu sóttvarna og gefið aðeins sérinnpakkað sælgæti.

Öskudagshefðin er hvergi jafn mikil hérlendis og á Akureyri og rétt að taka fram að von er á nánari upplýsingum um útfærslu í bænum, þegar nær dregur.