Hjartaþræðingar verði framkvæmdar á SAk
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, vill að Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar. Logi er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þess efnis sem hann lagði fram á Alþingi í dag. Meðflutningsmenn eru úr öllum flokkum, þar á meðal allir þingmenn Norðausturkjördæmis.
„Það myndi auka jöfnuð og aðgengi að meðferðum við hjartasjúkdómum á Íslandi og styrkja heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi en nauðsynlegt væri að tryggja samstarf við Landspítala og erlent hátæknisjúkrahús til að tryggja gæði meðferðar,“ segir Logi meðal annars í grein sem birtist á Akureyri.net í dag.
Logi nefnir einnig meðal annars:
- Aðstaða til hjartaþræðinga myndi auka getu SAk sem varasjúkrahúss á Íslandi
- Þörf fyrir sjúkraflug gæti minnkað talsvert, sem og kostnaður vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklings og aðstandenda
- Íbúar á upptökusvæði SAk ættu að komast mun fyrr í hjartaþræðingu sem myndi auka batalíkur og lífsgæði til muna
Smellið hér til að sjá grein Loga Einarssson á Akureyri.net
Smellið hér til að sjá þingsályktunartillöguna á vef Alþingis