Hjarta Akureyringa slær fyrir hamborgarann
„Íslendingar elska skyndibitann sinn,“ segir Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt á Íslandi. „Fjórum mánuðum eftir að heimsendingarþjónusta Wolt hófst á Akureyri sýndi tölfræðin skýrt að Akureyringar elska hamborgara, en um það bil ein af hverjum þremur heimsendingum í bænum er afhending á hamborgara.“ Bæði er hægt að panta sér mat í gegnum app fyrirtækisins og á heimasíðunni. Akureyringar hafa tekið þjónustunni opnum örmum og yfir 20 söluaðilar nýta sér Wolt til heimsendinga.
Steiktur kjúklingur er vinsælasti rétturinn í Reykjavík en Akureyringar elska hins vegar hamborgara
Hamborgarinn í fyrsta sæti fyrir norðan
Aðallega eru það veitingastaðir sem nýta sér heimsendingaþjónustu Wolt, en einnig er hægt að panta smávöru frá Krambúðinni. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu er forvitnilegt að sjá hvað Akureyringar eru helst að kaupa, en það er morgunljóst að hamborgarar eiga fastan sess í skyndibitahjörtum bæjarbúa.
„Steiktur kjúklingur er vinsælasti rétturinn í Reykjavík en Akureyringar elska hins vegar hamborgara. Hinn klassíski hamborgari er klárlega í fyrsta sæti á Akureyri en 30 prósent allra pantana frá því að Wolt hóf göngu sína í bænum í mars hafa verið hamborgarar. Blönduð pöntun frá „Evrópskum veitingastöðum“, sem við þekkjum sem pizzu- grill- pasta- og borgaraveitingastaði er næstvinsælast í heimsendingu og kebab er í þriðja sæti.
Topp 10 matartegundirnar á Akureyri:
- Hamborgari
- Evrópskur
- Kebab
- Cafe
- Mexíkóskur
- Samlokur
- Sushi
- Ís
- Taílenskur
- Pizza
Yfir 20 matsölustaðir og verslanir á Akureyri bjóða upp á pantanir og heimsendingu í Wolt appinu. Mynd: samsett.
Vinsælustu matartegundirnar endurspeglast einnig í söluhæstu veitingastöðunum þar sem staðir eins og DJ Grill, Greifinn og Taste eru allir með umfangsmikla hamborgaravalkosti. Pizzur og kebabið frá Kurdo Kebab, sem og kvöldverðarcrêpes og eftirréttir frá Sykurverki, eru líka í uppáhaldi í bænum.
Fimm vinsælustu veitingastaðirnir á Akureyri (í handahófskenndri röð):
- Sykurverk
- Greifinn
- Taste
- DJ Grill
- Kurdo Kebab
Verslunarmiðstöð í vasanum
„Á öðrum mörkuðum höfum við séð nokkuð góða uppsveiflu í matvöru,“ segir Elisabeth. „Einnig lyfjum, leikföngum, blómum og gæludýravörum. Ég á ekki gæludýr sjálf, en ég get ímyndað mér að það sé léttir að fá fimm kílóa poka af hundamat heim að dyrum, frekar en að þurfa að halda á pokanum úr búðinni. Okkur finnst gaman að lýsa Wolt sem „verslunarmiðstöð í vasanum“ og það er einmitt það sem við viljum skapa. Við erum ánægð með að svona margir íslenskir smásalar séu tilbúnir að prófa þetta og auka úrvalið fyrir viðskiptavini,“ segir Elisabeth að lokum.
Wolt var stofnað í Helsinki í Finnlandi árið 2014, en samkvæmt heimasíðu þeirra var hugsunin upphaflega að gera bæjarlífið auðveldara fyrir íbúana. Ekki allir eigi og noti bíla í bæjum og borgum, og hugsjón Wolt er að brúa bilið á milli söluaðila og neytenda. Þjónustan er núna starfrækt í 27 löndum.