Fara í efni
Fréttir

Hiti áfram um 20 stig en dregur úr vindi

Börnin léku við hvern sinn fingur á tjaldsvæðinu á Hömrum í gær, enda veðrið dásamlegt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Veðrið leikur áfram við Akureyringa og gesti þeirra í dag og raunar næstu daga. Svipaður hiti verður og í gær, nálægt 20 stigum, en draga á úr vindi.

Mörg þúsund gestir eru í bænum, talið er að um 10.000 tengist N1 knattspyrnumóti KA fyrir 5. flokk drengja, margir eru á leiðinni á Pollamót Þórs sem hefst í fyrramálið en þar sýnir eldra knattspyrnufólk gamla takta, og án efa er einnig fjöldi fólks í bænum sem bara elti góða veðrið. Einmuna blíða hefur einnig verið á Austurlandi og mikill fjöldi er líka þar á ferð.

Stemningin var skemmtileg á því frábæra tjaldsvæði á Hömrum í gær, þegar fulltrúi Akureyri.net leit þar við í blíðunni. Börn léku sér léttklædd, mörg í vatni sem er bæði spennandi en auk þess gott í hitanum. Margt er um manninn bæði á Hömrum og tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og á enn eftir að fjölga næstu daga.