Fara í efni
Fréttir

Hinsegin Norðurland á leið í Gleðigönguna

Þessi mynd er frá árinu 2016 en Hinsegin Norðurland hefur tekið þátt í Gleðigöngunni frá árinu 2012. Mynd: Facebooksíða HiN

Gleðigangan, hápunktur Hinsegin daga, fer fram í miðbæ Reykjavíkur á morgun. Hinsegin Norðurland tekur að vanda þátt í göngunni með litríkan vagn.

„Við reiknum með því að það fari 12 manns frá okkur í ár, segir Einar Schiöth, gjaldkeri HiN á Norðurlandi, en Gleðigangan er í senn kröfuganga þar sem hinsegin fólk minnir á baráttumál sín sem og vettvangur til að fagna því sem áunnist hefur í baráttunni. Að sögn Einars hafa félagar í Hinsegin Norðurland tekið þátt í göngunni síðan 2012. „2014 var fyrsta skiptið sem við tókum þátt sem sjálfstætt félag, fyrir það vorum við partur af hóp ungliða S'78,“  segir Einar. 

Fjölbreytileiki þemað í ár

Einar segir að það hafi allur gangur verið á fjölda þeirra sem tekið hafa þátt í göngunni í gegnum árin frá Hin Norðurland en þó sé óhætt að segja að þátttakendum fari hægt og rólega fjölgandi. „Á hverju ári erum við með eitthvað þema, þemað í ár er fjölbreytileiki. Yfirleitt er haft lauslegt þema til þess að þátttakendur af okkar hendi fái meira frelsi hvað varðar búninga, málningu og þess háttar. Annars er rútínan okkar alltaf svipuð; mæta í búningum, skreyta vagninn með einhverju litríku, húllumhæ og skemmta sér," segir Einar. 

Gangan hefst kl. 14 og er gengið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og endað við gatnamót Fríkirkjuvegar og Skothúsvegar.

Hinsegin Norðurland er félag hinsegin fólks á Norðurlandi og nágrenni. Þessi mynd er frá Gleðigöngunni í fyrra.  Mynd: Facebooksíða HiN.