Fara í efni
Fréttir

„Vegferð ráðherra sannarlega klúður“

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri.

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir vegferð barna- og menntamálaráðherra og ráðuneytis hans við fyrirhugaða sameiningu framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, MA og VMA, hafa verið klúður. Hún sagði á bæjarstjórnarfundi í gær að það eina í stöðunni, að sínu mati, væri að ráðherra drægi ákvörðun sína til baka.

Fyrirhuguð sameining skólanna var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. 10 af 11 bæjarfulltrúum lögðu fram bókum um málið eins og Akureyri.net greindi frá í gær – sjá hér – þar sem lagst var gegn sameiningunni á forsendum sparnaðar.

Hilda Jana var ein þeirra sem lagði fram bókunina en tók sterkar til orða í umræðum.

„Þessi vegferð barna- og menntamálaráðherra og hans ráðuneytis hefur sannarlega verið klúður. Klúður sem hefur skapað vantraust meðal fjölmargra hagsmunaaðila framhaldsskólanna á Akureyri. Klúður sem getur hreinlega haft neikvæð áhrif á framhaldsskólana okkar, sem var ekki það sem þeir þurftu á að halda eftir að hafa staðið í ströngu undanfarin ár í kjölfar styttingar framhaldskólanna og heimsfaraldurs,“ sagði Hilda Jana. „Að mínu viti er það eina í stöðunni sem nú er uppi að ráðherra dragi ákvörðun til baka um að hefja vinnu við sameiningu MA og VMA og setji þess í stað af stað vinnu við að ná skilgreindum markmiðum um að efla framhaldsskólana, með samvinnu að leiðarljósi, ekki sameiningu.“

Lára Halla Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, tók í sama strengt og sagði að ráðherra yrði að draga málið formlega til baka.

Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, sagðist vona að ráðherra bæri gæfa til að fara aðra leið en hann ætlaði sér og ég er drulluhræddur um að hann sé að fara.“