Fara í efni
Fréttir

Hermann einbeitir sér að almannavörnum

Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, sinnir eingöngu verkefnum tengdum almannavörnum á næstunni. Hann hefur verið ráðinn til þess tímabundið, til næstu áramóta.

„Á síðustu misserum hafa verkefni tengd almannavörnum verið vaxandi þáttur í starfsemi lögreglunnar á Norðurlandi eystra og eins og allir þekkja þá hafa t.d. óveður, jarðhræringar og Covid verið mikið í umræðunni svo eitthvað sé nefnt í þessum málaflokki.

Nú hafa embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra tekið höndum saman um að efla sína starfsemi hvað þetta varðar og ráðið starfsmann sem er í 50% starfshlutfalli hjá hvorum aðila og mun hann hafa starfsaðstöðu á Akureyri. Verkefnið er tímabundið í fyrstu og er til næstu áramóta,“ segir í tilkynningu.

Hermann hefur starfað í lögreglunni um 30 ár og frá 2004 hefur hann verið aðalvarðstjóri á Akureyri og sinnt verkefnum almannavarna í ríkum mæli. „Hermann hefur komið mikið að þessum málaflokki undanfarin ár hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra og starfað í aðgerðastjórn þegar hún er virkjuð. Þá hefur hann komið að gerð viðbragðsáætlana og æfinga og átt í miklum samskiptum við aðra viðbragðsaðila á starfssvæðinu.

Helstu hlutverk sem hann mun sinna, auk þeirra sem greint er frá hér að ofan, er meðal annars að efla aðgerðastjórnir á landsvísu samkvæmt nýútkominni stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Þá mun hann koma að vinnu við yfirferð á viðbragðsáætlun hvað óveður varðar á landsvísu og skoða með hvaða hætti hægt sé að auðvelda viðbragðsaðilum að nálgast upplýsingar úr viðbragðsáætlunum á ögurstundu.“