Helgi Rúnar hefur safnað 1,9 milljónum
Helgi Rúnar Bragason, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar, er með ólæknandi krabbamein að mati læknateymis, segir hann á söfnunarsíðu sinni Skeggkeppni Mottumars. Helgi hefur náð eftirtektarverðum árangri í þeirri keppni undanfarin tvö ár; samanlegt hefur hann safnað tæplega 3 milljónum króna, þar af 1,9 milljónum að þessu sinni. Markmiðið nú var 500 þúsund krónur og hann hefur því safnað 382% af þeirri upphæð, ef svo má að orði komast!
Söfnuninni lýkur um mánaðamótin og ástæða er til að hvetja fólk til að taka þátt. Söfnunarsíðu Helga Rúnars í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér
Helgi Rúnar rekur söguna af krabbameinsgreiningunni á söfnunarsíðunni sinni, en hann greindist með illkynja krabbamein við tungurót í júní 2021. Hann leitaði til læknis vegna verks í eyra og þau hjónin eru sammála um að allt hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig um leið og meinið uppgötvaðist. „Þegar við hittum lækni var búið að undirbúa allt. Búið að panta tíma hjá tannlækni og næringarfræðingi og svo vorum við bara leidd áfram,“ segir Hildur Ýr Kristinsdóttir, eiginkona Helga, á vef Krabbameinsfélag Íslands.
„Helgi Rúnar fór í kjölfarið í 35 geislameðferðir, 6 lyfjameðferðir og aðgerð til að uppræta meinið. Því miður greindist nýtt ólæknandi mein í nefholi stuttu síðar og um þessar mundir er Helgi Rúnar í tíu skipta geislameðferð á ný til að létta á þrengslum í nefholinu og bæta lífsgæði hans.“
Af vef Krabbameinsfélags Íslands: Stuðningur í verki