Helgi rakaði saman fé í skeggkeppninni!
Helgi Rúnar Bragason safnaði mest allra einstaklinga í skeggkeppni Mottumars, samtals rúmum 2,2 milljónum króna, rúmri hálfri milljón meira en sá sem næstur kom. Helgi Rúnar fær að launum ferð í Skógarböðin og ævintýraveislu á Rub 23.
Undanfarin tvö ár hafa framlög í söfnun Krabbameinsfélagsins í hans nafni verið rúmlega 3,5 milljónir króna. Samtals söfnuðust rúmar 13,8 milljónir að þessu sinni þannig að Helgi Rúnar er með um 16% af öllu því sem safnaðist. Á söfnunarsíðu Helga sést að hann fór af stað af einstakri hógværð og setti markmiðið við 500.000 krónur en lokaniðurstaða er meira en fjórföld sú upphæð.
Greindist með illkynja mein 2021
Helgi Rúnar hefur rakið sögu sína á söfnunarsíðu skeggkeppninnar. Hann greindist með illkynja krabbamein við tungurót í júní 2021. Eftir 35 geislameðferðir, sex lyfjameðferðir og aðgerð til að uppræta meinið greindist nýtt ólæknandi mein í nefholi stuttu síðar. Helgi hefur síðan verið í geislameðferðum til að létta á þrengslum í nefholinu. „Krabbameinsfélagið hefur í öllu þessu gríðarlega mikilvægt hlutverk með sínum stuðningi sem snertir okkur öll og því vil ég hvetja ykkur öll sem geta veitt þessu þarfa málefni stuðning því enginn veit hvað hann átt hefur fyrr en misst hefur!“ skrifar Helgi Rúnar meðal annars á söfnunarsíðunni sinni.
Saman erum við sterkari!
Hann var ekki bara einn að safna heldur var hann í liði með Round Table-félögum sínum í nafni Góðgerðasjóðs félagsskaparins. „Góðgerðasjóður Round Table vill gera sitt til þess að styðja við bakið á þeim sem þurfa að takast á við krabbamein og berjast gegn krabbameinum. Þess vegna ákváðum við í liðinu að safna fyrir Krabbameinsfélagið með þátttöku okkar í Mottumars 2023!“
„Hvert okkar og eitt getur ekki breytt miklu en við treystum Krabbameinsfélaginu til að vinna áfram af krafti að markmiðum sínum að bæta lífslíkur og lífsgæði fólks sem veikist af krabbameinum og koma í veg fyrir þau. Það gerir félagið meðal annars með krabbameinsrannsóknum, með ráðgjöf og stuðningi, fræðslu og forvarnavinnu,“ skrifar Helgi Rúnar. Við það verkefni vill hann og félagar hans í Round Table hjálpa, því: „Saman erum við nefnilega ennþá sterkari!“
Hefur vakið mikla athygli með árangri sínum
Viðtal við hjónin Helga Rúnar og Hildi Ýr Kristinsdóttur birtist á krabb.is í lok mars.
Fyrr í vetur auglýstu eigendur húss á Tenerife að þau ætluðu að gefa vikudvöl í húsinu og óskuðu eftir ábendingum um fólk sem ætti skilið að njóta þess. Úr varð að Helgi Rúnar fengi húsið til afnota ásamt fjölskyldu - Með ólæknandi krabbamein og fær húsið á Tenerife (mbl.is).