Fara í efni
Fréttir

Helgi hættir – starf forstjóra auglýst

Helgi Jóhannesson hefur verið forstjóri Norðurorku síðan 2012. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Starf forstjóra Norðurorku hefur verið auglýst laust til umsóknar. Helgi Jóhannesson, sem verið hefur forstjóri í áratug, lætur af störfum fyrir aldurs sakir síðar á árinu. Helgi verður 66 ára í sumar.

Norðurorka, sem rekur fjölbreytta veitustarfsemi á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, er í eigu sex sveitarfélaga við Eyjafjörð og í Þingeyjarsveit. Akureyrarbær er langstærsti eigandinn, á rúmlega 98% hlutafjár, en aðrir eru Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit.

Norðurorka varð til árið 2000 með sameiningu Hita- og Vatnsveitu Akureyrar og Rafveitu Akureyrar. Hitaveitan og Vatnsveitan höfðu verið sameinaðar 1993.

Þrír hafa verið forstjórar hins sameinaða félags:

  • Franz Árnason 2000 – 2011
  • Ágúst Torfi Hauksson 2011 – 2012
  • Helgi Jóhannesson frá 2012. Hann verður nýjum forstjóra innan handar fyrst í stað.

„Leitað er að dugmiklum einstaklingi í krefjandi stjórnunar- og leiðtogastarf þar sem reynir á samskiptahæfni, frumkvæði og forystuhæfileika,“ segir í auglýsingu frá Mögnum.

„Forstjóri leiðir öflugt starfsfólk félagsins og ber ábyrgð á rekstri félagsins gagnvart stjórn Norðurorku. Hann ber m.a. ábyrgð á stefnumótun og framtíðarsýn, skipulagi, áætlanagerð og samskiptum við stærri hagsmunaaðila og stefnumótandi samningagerð,“ segir í auglýsingunni.

Hjá Norðurorku starfa um 70 manns. Umsóknarfrestur er til og með 30. mars.  Hér má sjá nánari upplýsingar.