Fara í efni
Fréttir

Heitavatnsnotkun tvöfaldaðist á 20 árum

Unnið við nýja Hjalteyrarlögn skammt norðan Akureyrar fyrr á þessu ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fréttir af skömmtun á heitu vatni, lokanir sundlauga og hvatning veitufyrirtækja til notenda um að spara heita vatnið skutu einhverjum skelk í bringu í vetur, eða ættu að minnsta kosti að hafa vakið fólk til umhugsunar. Akureyringar lentu að vísu ekki í slíku, en litlu munaði að grípa þyrfti til ráðstafana í Ólafsfirði á kuldakaflanum í mars. Þá voru öll úrræði nýtt að fullu og það slapp.

Upphituðum bílastæðum fjölgar, pottaeign hefur rokið upp og heita vatnið notað sem aldrei fyrr. Heita vatnið rennur hjá okkur sumum eins og það sé óþrjótandi. Höfum við verið kærulaus og óábyrg í því hvernig við notum þessa einstöku auðlind okkar? Eigum við á hættu að missa þessi lífsgæði að einhverju leyti? Höfum við misst sjónar á upphaflega tilgangi hitaveitnanna, að hita hús? 

Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku, og Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Aukinn kraftur í rannsóknir

Það eru að minnsta kosti blikur á lofti hvað þetta varðar og veitufyrirtæki setja nú aukinn kraft í rannsóknir, leit að fleiri stöðum þar sem hægt væri að bora eftir nýtanlegu heitu vatni, auk þess að fara af stað með margs konar verkefni til að bæta nýtingu og/eða takmarka notkun. 

Hvernig standa þessi mál á Akureyri og í Eyjafirði? Hvað hefur verið gert og hvað er verið að gera til að koma í veg fyrir að þessi mál fari á versta veg Sérfræðingar Norðurorku fást nú við áskoranir vegna innrenslis sjávar við borholur á Hjalteyri og vinnu hefur verið flýtt vegna þess við undirbúning borana í landi Ytri-Haga, aðeins norðar, á sama tíma og rannsóknir og tilraunir fara fram til að hefta þessa þróun á Hjalteyri.

Þurfum að hugsa okkar gang

Akureyri.net settist niður með tveimur sérfræðingum hjá Norðurorku og ræddi hitaveitumálin frá ýmsum hliðum. Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, og Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu, segja enga ástæðu til að hinn almenni notandi fari á taugum en við þurfum vissulega að hugsa okkar gang. 

„Það er engum hollt að hafa áhyggjur, en það er kominn sá tímapunktur í okkar lífi að við þurfum að huga að því hvernig við viljum nota hitaveituna. Nýting Íslendinga á hitaveitum hefur verið þannig að við höfum litið á þetta eins og sjóinn, það sé bara nóg til og ekkert vandamál," segir Hjalti Steinn. Við birtum ítarlegra samtal við þá Hjalta Stein og Hörð Hafliða hér á Akureyri.net á næstu dögum.

Fullnýtt á Hjalteyri?

Á ársfundi Norðurorku í lok apríl sagði Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, í ávarpi sínu meðal annars að það liggi fyrir að ráðast þurfi í umfangsmiklar rannsóknir og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að mæta aukinni og vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku.

Við gripum nokkra fróðleiksmola um heita vatnið á Akureyri og Eyjafirði úr ársskýrslu Norðurorku fyrir árið 2022 og ávarpi Eyþórs Björnssonar forstjóra á ársfundi fyrirtækisins.

  • Heitavatnsnotkun Akureyringa hefur tvöfaldast á síðastliðnum 20 árum.
  • Meðalvöxtur á heitavatnsnotkun á Akureyri er um 2,1% á milli ára, en aukningin á árinu 2022 var 2,8% frá árinu áður.
  • Vinnslusvæðið á Hjalteyri er nú fullnýtt nema takist að vinna bug á innrennlsi sjávar í kerfið.
  • Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur staðið undir allri aukningu í heitu vatni á Akureyri í um 20 ár, en virðist komið í hámarksafköst og ýmislegt bendir til að draga þurfi úr nýtingu á svæðinu til lengri tíma til að það verði sjálfbært.
  • Snjallmælar gefa tækifæri til að byggja upp verðskrár sem stuðla að skynsamlegri nýtingu á jarðhitanum ásamt gagnaöflun sem stuðlað getur að minni sóun.
  • Við rannsóknir á jarðhita í Eyjafirði verða boraðar 30 hitastigulsholur sem fyrstu skref til að staðsetja líklegan nýtanlegan jarðhita.

  • Ársfundur Norðurorku 2023 | Norðurorka
  • Ársskýrsla Norðurorku 2022.