Fara í efni
Fréttir

Heimurinn eins og hann er – Stefán Jón í HA

Stefán Jón Hafstein hefur síðustu misseri haldið fjölda fyrirlestra, innanlands og utan, sem byggðir eru á bókinni Heimurinn eins og hann er,  sem Stefán sendi frá sér fyrir tæpum tveimur árum. Hann hefur nýja fyrirlestraröð í hádeginu á morgun á bókasafni Háskólans á Akureyri og er fundurinn, sem hefst kl. 12.15, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis í boði háskólans.

„Ég var boðinn til Akureyrar strax eftir að bókin kom út en hafði þá ekki tök á að koma svo mig langaði að bæta úr,“ segir Stefán Jóns sem kveðst munu fjalla um megin efni bókarinnar og ræða viðbrögð sem komið hafa fram. Hann setur efni bókarinnar í frásöguform við hæfi á óformlegri samkomu fyrir almenning. 

„Háskólarnir fyrir sunnan hafa fengið mig nokkrum sinnum, félagasamtök og fyrirtæki og ég sníð þetta bara að aðstæðum. Ég reyni að skýra út hvernig stóru viðfangsefni samtímans tvinnast saman,“ segir hann. „Við sjáum ótrúlegt hrun í vistkerfum heimsins, samtímis því að loftlagsmálin kalla á skjótar aðgerðir. Við erum komin út yfir þolmörk jarðar á mörgum sviðum en þurfum líka að brauðfæða meira en átta milljarða manna. Allt tengist þetta og ég tek mér fyrir hendur að sýna samhengið. En svo hefur það gerst á viðburðum með fólki að áleitnar spurningar vakna um framtíðina.“

Hann spyr: Hvernig leysum við úr? Hvað þarf að gerast? „Ég er ekki kominn með svarið en ég velti fyrir mér hvernig við vinnum úr verkefninu.“

Stefán Jón bætir við að nú lifi mannkyn á algjörlega fordæmalausum tímum og það sé á vissan hátt heillandi að fá að skoða stöðuna einmitt í dag þegar svo mikið sé í húfi. „Í bókinni vitna ég í Múmínsögurnar, þar sem segir að heimurinn sé svo dásamlega dásamlegur og það er einmitt ástæðan fyrir því að taka til hendinni núna.“