Fara í efni
Fréttir

Heimir Örn vill 1. sæti hjá Sjálfstæðisflokki

Heimir Örn Árnason, stjórnandi í Naustaskóla og handboltamaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Heimir Örn birti á Facebook síðu sinni í dag.

Tilkynningin er svohljóðandi:

„Kæru Akureyringar,

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 1. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Ég hef brennandi áhuga á bæjarmálum og samfélagsmálum almennt. Allir þeir sem þekkja mig vel vita að ég er ákveðinn, sanngjarn og mikill keppnismaður. Mannleg samskipti er einn af mínum helstu styrkleikum og hefur það hjálpað mér mikið í öllum mínum störfum hingað til. Það hefur blundað í mér í mörg ár að bjóða mig fram í sveitarstjórnarkosningunum og nú ákvað ég að láta vaða.

Ég tel mig eiga fullt erindi í bæjarstjórn Akureyrar. Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og sjálfboðastörfum. Undanfarin fjögur ár hef ég starfað sem stjórnandi í Naustaskóla á Akureyri og eru fræðslumál og lýðheilsumál mér mjög kær. Einnig hef ég verið formaður unglingaráðs KA/Þór og KA í handknattleik undanfarin sex ár. Ég trúi að íþrótta- og tómstundamálin séu lykillinn að góðum forvörnum. Sem dæmi má nefna frábær uppgangur hjá kvennaliðum KA/Þór og Þór/KA í handknattleik og knattspyrnu. Þær hafa verið stórkostlegar fyrirmyndir sem hefur skilað sér í fleiri iðkendum og enn meiri áhuga á kvennaíþróttum í bænum. Við þurfum öflugar fyrirmyndir til að vita hvert við viljum stefna.

Ég verð 43 ára árinu og er giftur Mörthu Hermannsdóttur. Við eigum tvo syni og eina dóttur. Hér hef ég átt heima í 35 ár og hér líður mér best. Ég vil leggja mitt að mörkum til að Akureyri verði áfram eftirsóknarverður staður til að búa á, hér sé áfram góð þjónusta, það séu ekki íþyngjandi álögur á fjölskyldufólk og hér sé eldri borgurum búið áhyggjulaust ævikvöld m.a. með byggingu á fleiri í íbúðarkjörnum fyrir 60 ára og eldri.

Áfram sé öflugt íþrótta- og forvarnar starf og ég tel afskaplega mikilvægt að hér séu leik- og grunnskólar í fremstu röð og að hlúið sé vel að Háskólanum á Akureyri sem sprungið hefur út á síðustu árum með metnað og dugnað.

Ég óska eftir ykkar stuðningi í 1. sætið

Kær kveðja,
Heimir Örn Árnason“

  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú þrjá bæjarfulltrúa – Gunnar Gíslason, og Eva Hrund Einarsdóttir, sem skipuðu tvö efstu sæti listans 2018 verða hvorugt í kjöri í vor en þriðji bæjarfulltrúi flokksins, Þórhallur Jónsson, gefur kost á sér áfram – ekki þó í oddvitasætið. Sjálfstæðsmenn hafa ákveðið að halda prófkjör um efstu fjögur sætin.