Heilsugæsla á tjaldstæði og við Skarðshlíð
Ljóst er að heilsugæslustöðin norðan Glerár verður á horni Undirhlíðar og Skarðshlíðar, eins og hugmynd hefur lengi verið um. Ekki verður af því að stöðin rísi norðar í þorpinu - við gamla Sjafnarhúsið, sem nú er verið að breyta í verslunarmiðstöðina Norðurtorg. Athafnamaðurinn Pétur Bjarnason bauð rými undir heilsugæslustöð á lóðinni en ekki reyndist áhugi á því hjá Ríkiskaupum skv. heimildum Akureyri.net. Heilsugæslan verður því á neðstu hæð fjölbýlishúss sem rísa mun við Skarðshlíð, þar sem ríkið mun leigja húsnæði.
Löngu er ákveðið að tvær heilsugæslustöðvar leysi af hólmi þá einu, sem árum saman hefur verið í miðbænum. Sunnan ár verður nýja heilsugæslan á gamla tjaldstæðinu, svæði sem afmarkast af Byggðavegi, Þingvallastræti, Þórunnarstræti og Hrafnagilsstræti. Á svæðinu verður blönduð byggð og starfsemi; íbúðir, verslanir og þjónustu.
Stefnt er að því að starfsemi heilsugæslunnar verði flutt í nýju stöðvarnar tvær árið 2023.