Fara í efni
Fréttir

„Hef reynslu af því að færa henni blóm!“

Hinrik prins, Halldóra Eldjárn forsetafrú, Margrét Þórhildur drottning og börnin sem færðu gestunum blóm; Regína Sigvaldadóttir og Sigurður Árni Sigurðsson.

Mar­grét Þór­hild­ur II. Dana­drottn­ing stíg­ur til hliðar í dag eft­ir rúm­lega hálfr­ar ald­ar valda­tíð. Friðrik eldri sonur hennar tek­ur við völd­um og verður Friðrik X – Friðrik tíundi.

Akureyringurinn Sigurður Árni Sigurðsson myndlistarmaður birti í tilefni tímamótanna þessa frábæru mynd á Facebook síðu sinni í gær. Hún er tekin í júlí árið 1973 þegar Margrét Þórhildur og eiginmaður hennar, Hinrik prins, komu í opinbera heimsókn til Íslands, m.a. til Akureyrar. Sigurður, þá 10 ára, og Regína Sigvaldadóttir, sjö ára, færðu hinum tignum gestum blóm á sýslumörkum Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslna í Vaðlaheiði.

Mar­grét Þór­hild­ur tók við sem drottn­ing 1972, ári fyrir heimsóknina til Íslands, eft­ir and­lát föður síns, Friðriks ní­unda Dana­kon­ungs.

  • Á myndinni eru, frá vinstri, Hinrik prins, eiginmaður drottningar, Halldóra Eldjárn forsetafrú, Margrét Þórhildur drottning og börnin sem færðu gestunum blóm þegar forráðamenn Akureyrar tóku á móti þeim á sýslumörkum Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu í Vaðlaheiði, Regína Sigvaldadóttir og Sigurður Árni Sigurðsson. 

Frásögn Morgunblaðsins af heimsókn Margrétar drottningar og Hinriks prins í júlí 1973.

Hissa á Akureyrarbæ!

Drottningin og fylgdarlið hennar kom fljúgandi norður í land frá Reykjavík að morgni laugardags 7. júlí. Lent var á Aðaldalsflugvelli og haldið í Mývatnssveit. „Ég sé þetta fyrir mér; laxveiðimennirnir í Aðaldalnum lyfta brúnum þegar þeir eru truflaðir af lítilli flugvél – þar er þá drottning Danmerkur á ferð!“ segir Sigurður Árni við Akureyri.net, en hann er forfallinn veiðimaður sjálfur.

Ekið var úr Mývatnssveit til Akureyrar síðar um daginn. „Skátar höfðu búið til fánaborg á sýslumörkunum í Vaðlaheiði og þar var drottningin boðin velkomin í danska bæinn Akureyri,“ segir Sigurður.

„Ég veit ekki hvort það er rétt munað, enda 50 ár síðan, en ég hef á tilfinningunni að við Íslendingar höfum verið nær Danmörku þá en í dag, ef svo má segja. Þetta þótti ofboðslega mikil athöfn,“ segir Sigurður.

Hann bætir við, skellihlæjandi: „Ég verð að segja að ég er mjög hissa að Akureyrarbær skuli ekki hafa beðið mig um að fara með blómvönd til Margrétar Þórhildar á þessum tímamótum þegar hún lætur af embætti – ég hef reynslu af því að færa henni blóm!“

Þetta var í annað sinn sem Margrét Þórhildur og Hinrik komu til Akureyrar, þau stöldruðu þar við dagpart í júlí árið 1970 í miðri opinberri heimsókn til Grænlands. Komu þá fljúgandi frá Kulusuk, stigu á skipsfjöl á Akureyri þaðan sem siglt var upp með austurströnd Grænlands til Scoresbysunds – Nerlerit Inaat.

Hinrik prins, Halldóra Eldjárn forsetafrú, Margrét Þórhildur drottning og börnin sem færðu gestunum blóm; Regína Sigvaldadóttir og Sigurður Árni Sigurðsson.

Morgunblaðið fjallaði myndarlega um heimsókn drottningar og fylgdarliðs hennar norður í land. Fyrst var dvalið í Mývatnssveit sem fyrr segir. Blaðið segir:

„Því næst var ekið að Goðafossi og voru skúrir á leiðinni þangað. Margt bíla var við Goðafoss og mikil veðurblíða. Drottning og föruneyti hennar héldu nú yfir Vaðlaheiði og yfir til Eyjafjarðar. Á Vaðlaheiði var svartaþoka, en veður var gott á Akureyri. Á sýslumörkum Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu tóku Ófeigur Eiríksson, sýslumaður Eyfirðinga, Bjarni Einarsson, bæjarstjóri á Akureyri og Jón G. Sólnes, forseti bæjarstjórnar Akureyrar á móti þjóðhöfðingjunum, en Jóhann Skaptason [sýslumaður Þingeyinga] kvaddi gestina. Á þjóðveginum hafði verið komið fyrir stóru skilti með áletruninni: Velkomin til Eyjafjarðar og Akureyrar. Skátar stóðu heiðursvörð á veginum og röð danskra og íslenzkra fána var þar.“

Síðan segir:

„Er til Akureyrar var komið var ekið eftir nýja Norðurlandsveginum um fjöruna, en lokið var við þann vegarkafla nú í vikunni. Var Akureyrarbær prýddur fánum í tilefni heimsóknarinnar. Komið var í Lystigarðinn um kl. 18, eða um klukkustund síðar en ráð hafði verið fyrir gert. Í Lystigarði Akureyringa var saman komið mikið fjölmenni og tóku gestirnir sér þar sæti. Kirkjukór Lögmannshlíðarkirkju, karlakórinn Geysir og Söngfélagið Gígja sungu danska og íslenzka þjóðsönginn, en Lúðrasveit Akureyrar lék undir.“

Forsíða Akureyrarblaðsins Dags miðvikudaginn 11. júlí 1973.

„Því næst tók Bjarni Einarsson bæjarstjóri til máls og ávarpaði þjóðhöfðingjana á dönsku. Minntist hann m.a. fyrri heimsóknar Margrétar og Henriks til Akureyrar 1970 og fagnaði endurkomu þeirra nú. Rifjaði hann upp nokkur atriði úr sögu Akureyrar, en endaði mál sitt með því að bjóða dönsku þjóðhöfðingjahjónin enn án ný velkomin til Akureyrar.

Margrét Danadrottning gekk þá í ræðustólinn og flutti skörulega þakkarræðu. Sagði drottning það vera sér sérstakt ánægjuefni að vera nú kom til Íslands, lands sem hún hefði heyrt svo mikið um, ekki sízt frá foreldrum sínum. Minntist drottning fyrri heimsóknar sinnar til Akureyrar og sagði að það gleddi sig mjög að vera nú komin þangað á ný. Sagði drottning, að orð bæjarstjórans hefðu komið við hjarta sér og væri hún afar hrærð yfir ummælum hans í sinn garð og manns hennar. Færði drottning Akureyringum að lokum þakkir fyrir þær frábæru móttökur sem hún hefði fengið.

Úr Lystigarðinum var ekið rakleitt að Hótel KEA, þar sem þjóðhöfðingjarnir og fylgdarlið þeirra höfðu fataskipti, en veizla bæjarstjórnar Akureyrar hófst að KEA kl. 19.15. Stóð veizlan til kl. 22.30, en þá var höfuðstaður Norðurlands kvaddur og flugu gestir til Reykjavíkur á ný í tveim flugvélum.“

Fengu skjaldbökusúpu á Hótel KEA!

Morgunblaðið greindi skilmerkilega frá því hvaða veitingar voru bornar á borð í heimsókn hinna tignu gesta og það verður að segjast eins og er að mesta athygli vekur skjaldbökusúpan á Hótel KEA.

„Á matseðlinum í Hótel Reynihlíð var soðinn silungur, steiktur lambahryggur, mokka ís og kaffi,“ segir í blaðinu. „Kvöldverður var snæddur að Hótel KEA á Akureyri og var borin fram þar skjaldbökusúpa, humar í hlaupi, heilsteiktar nautalundir, ferskir ávextir í líkjör og kaffi. Á báðum stöðum var krásunum skolað niður með borðvínum af fínustu tegund.“