Fara í efni
Fréttir

Haukur tilnefndur til menntaverðlaunanna

„Haukur hefur undanfarin ár verið leiðandi í þróun og framsetningu á kennsluefni í rafiðngreinum,“ segir meðal annars í texta með tillögu um tilnefningu Hauks Eiríkssonar til Íslensku menntaverðlaunanna.

Haukur Eiríksson, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, er einn þeirra sem tilnefndur er til Íslensku menntaverðlaunanna.

Haukur er tilnefndur í flokknum Framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar, og er tilnefndur fyrir að leiða þróun rafiðnnáms í VMA með áherslu á farsæld nemenda og stöðugar umbætur í námi og kennslu.

Á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun er farið yfir feril Hauks og segir þar meðal annars að Haukur segi starfskenningu sína hafa þróast mikið frá því að hann hóf kennslu „og með árunum hefur hún einfaldast og snýr nú fyrst og fremst að hvatningu og vaxtarhugarfari nemenda. Allir nemendur koma í skólann til að læra,“ er haft eftir Hauki.

Í umsögn með tillögu að tilnefningu Hauks sagði meðal annars:

„Haukur hefur undanfarin ár verið leiðandi í þróun og framsetningu á kennsluefni í rafiðngreinum. Hann var afar hugmyndaríkur og lausnamiðaður í Covid faraldrinum og hélt kennslu gangandi á frumlegan og skapandi hátt. Hann er yfirvegaður og hefur góða nærveru. Fyrir honum eru nemendur allir jafnir og hver og einn fær tækifæri til að nálgast námið á sínum forsendum. Haukur er afar góð fyrirmynd í starfi og einkalífi, bæði fyrir nemendur sína og samstarfsfólk.“

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum:

A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
B. Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
C. Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.
E. Hvatningarverðalun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Haukur er tilnefndur í flokki D, framúrskarandi iðn- og verkmanntun. Akureyri.net hefur áður sagt frá tilnefningu Hrundar Teitsdóttur, kennara við Hríseyjarskóla, en hún er tilnefnd í flokki B, framúrskarandi kennari.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum, að því er fram kemur á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun.