Fara í efni
Fréttir

Haukar og Þór gefa fé í Garðinn hans Gústa

Stjórnir körfuknattleiksdeilda Þórs og Hauka tóku saman höndum og styrktu verkefnið Garðinn hans Gústa eftir leik liðanna í 16-liða úrslitum bikarkeppni KKÍ sl. sunnudagskvöld. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

Deildirnar ákváðu að láta allan aðgangseyri renna til verkefnsins, og ennfremur gáfu dómarar leiksins, Ísak Ernir Kristinsson og Helgi Jónsson, eftir laun sín og styrktu þannig verkefnið. Miðar voru seldir fyrir 89.000 krónur og rennur hver króna í þetta góða málefni.

Garðurinn hans Gústa er verkefni sem nokkrir vinir Ágústar H. Guðmundssonar heitins standa að. Ágúst lék lengi körfubolta með Þór og þjálfaði síðan fyrir félagið með frábærum árangri, en hann lést í byrjun árs langt fyrir aldur fram. Markmiðið er að reisa veglegan körfuboltavöll við Glerárskóla og afhenda Akureyrarbæ í nafni Ágústar, þegar aðstaðan verður fullbúin.

Verkefnið er ekki full fjármagnað. Þeim, sem vilja leggja því lið, er beint á reikning söfnunarinnar:

0302 - 26 - 000562. Kennitala: 420321-0900

Hér er frétt Akureyri.net um þetta fallega verkefni.

Hér er frétt Akureyri.net um fyrstu skóflustunguna.

Heimasíða Þórs

  • Bikarleikurinn sem nefndur var fór hljótt. Haukar sigruðu 97:88 á heimavelli, en vert er að geta þess að Þórsarar léku án tveggja erlendra leikmanna; Jordan Blound var ekki orðinn löglegur og Bouna N'Daiye var enn í sóttkví.