Fara í efni
Fréttir

Utanvegaakstur allt of algengur á Akureyri

Djúp hjólför eftir utanvegaakstur á bletti í Hagahverfi sem Umhverfissvið Akureyrarbæjar hefur verið að reyna að græða upp. Mynd RH

„Hann má gjarnan koma og laga þetta,“ sagði Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnastjóri á Umhverfissviði hjá Akureyrarbæ í samtali við fréttastofu RÚV, en í kvöldfréttum gærdagsins var sagt frá grófum utanvegaakstri á túni syðst í Hagahverfi. Þar hafa starfsmenn Umverfissviðs reynt að græða upp tún, en ítrekað hafa einhverjir séð sér leik að því að keyra á þungum bílum yfir svæðið, með þeim afleiðingum að djúp för eru um allt. 

 

Jón Birgir Gunnlaugsson sýnir fréttamanni RÚV förin í Hagahverfi. Skjáskot af vefspilara RÚV.

Utanvegaakstur allt of algengur

„Það er allt of algengt að menn geti ekki haldið sig á götunum,“ bætir Jón við. Hann ítrekar að utanvegaakstur er ekki bara bannaður í óbyggðum. „Hann er líka stranglega bannaður innanbæjar.“ Jón minntist á utanvegaakstur í Kjarnaskógi, en Ingólfur Jóhannesson, framkvæmdastjóri hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga, segir að sennilega eigi Jón við atvik sem átti sér stað í nóvember síðastliðnum. Þá hafði einhver keyrt um svæði, þar sem starfsfólk skógarins var nýbúið að leggja nýjar þökur og sá í þær, en mikill tími og kostnaður fór í að laga skemmdirnar og sá upp á nýtt.

 

Á myndum sem Ingólfur sendi Akureyri.net, má sjá skemmdarverkin. „Jón Bergur Arason vélaverktaki stendur hér á myndinni bugaður við hjólför sem einhver ágætur Akureyringur skildi eftir sig í nýsáningu í Kjarnaskógi nú í lok nóvember,“ segir Ingólfur. „Á sama tíma vorum við í kapphlaupi við veður, með sjálfboðaliða að störfum, að leggja lokahönd á Kanínuleiksvæðið okkar sem er í næsta nágrenni og við vígjum næsta sumar í þágu samfélags.“

„Jón, ásamt starfsfólki Skógræktarfélagsins lagði virkilega hjarta og sál í mótun og sáningu á Kjarnavelli og Kjarnatúni í sumar, lái honum hver sem vill að vera svekktur. Þarna er búið að spóla á framtíðar samkomuflöt og áhorfendabrekku gesta Kjarnaskógar sem og í sleðabrekku barnanna okkar sem er í baksýn,“ bætir Ingólfur við. „Það er fúlt að laga eftir svona fanta, við náðum í sameiningu vissulega að græja það fyrir frost en það kostar líka peninga að laga svona skemmdarverk, peninga sem eru ekki endilega til og kostnaður lendir á þeim sem síst skyldi.“

Utanvegaakstur getur líka skemmt þó að snjór sé yfir öllu

„Það gerist aðeins of oft að fólk keyri utan vega í skóginum,“ segir Ingólfur við blaðamann Akureyri.net. „Á veturna gerist það stundum að fólk hefur verið að keyra og skemma bæði skíðabrautirnar sem við erum búin að troða, og sleðabrekkuna sem við troðum og útbúum fyrir krakka og fjölskyldur sem heimsækja skóginn. Það er mjög leiðinlegt þegar það gerist.“

Umfjöllun Akureyri.net um skemmdir á skíðabrautinni í nóvember síðastliðnum:

26. 11 '24 – „Okkur er ekki skemmt, þvílík ónáttúra!“

27. 11. '24 – Baðst afsökunar og er „maður að meiri“

„Vegir í Kjarnaskógi eru vel merktir en það virðist ekki alltaf duga,“ segir Ingólfur. „Einstaka sinnum ná myndavélar þessum aðilum, en oftast vitum við ekki hver var að verki.“ Skemmdirnar á skíðabrautinni rötuðu í fjölmiðla og sá sem þar var að verki kom fram og baðst afsökunar. Nú verður spennandi að sjá, hvort að ökuþórinn á flötinni við Hagahverfi geri það líka.

Ljótt að sjá, en yfirferðin á viðkomandi hefur verið töluverð. Mynd: RH