Fara í efni
Fréttir

Hámarkshraði lækkaður á tveimur stöðum

Séð norður Krossanesbraut við gatnamótin hjá Undirhlíð. Mynd af Facebook-síðu lögreglunnar.
Leyfilegur hámarkshraði hefur verið lækkaður niður í 30 km /klst. á tveimur stöðum í bænum. Annars vegar í Merkigili og hins vegar á hluta Krossanesbrautar frá gatnamótum við Undirhlið að gatnamótum við Hlíðarbraut, eða meðfram því svæði þar sem mestar framkvæmdir eru í hinu nýja Holtahverfi. 
 
Þegar jarðvegsframvæmdir stóðu yfir í hinu nýja hverfi austan Krossanesbrautar var hámarkshraði lækkaður og þrengingum komið fyrir á þremur stöðum. Þrengingarnar voru síðan færar út í vegkant og standa þar enn, þó nú hafi hámarkshraðinn aftur verið lækkaður.
 
Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra í morgun að kallað hafi verið eftir því í töluverðan tíma að umferðarhraði í Merkigili verði lækkaður. Þar segir einnig að lögreglan hafi verið við mælingar undanfarna daga og komi til með að fylgjast vel með í sumar. 
 
Lögreglan minnir í leiðinni á þær sektir sem liggja við því að aka of hratt, en í tilkynningu á Facebook-síðu lörgeglunnar segir: 
 

Þá viljum við einnig minna á sektarreikninn hér að neðan, en þar getur fólk flett upp og skoðað viðurlögin við brotum á umferðarlögunum. Þá skal það tekið fram að umferðarlögin er sameiginlegt verkefni allra vegfarenda. Markmið þeirra er að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar.

http://sektir.logreglan.is

Gatnamót Borgarbrautar og Merkigils. Mynd af Facebook-síðu lögreglunnar.