Haldið upp á 20 ára afmæli Lagadeildar HA
Málþing var haldið fyrr í dag í Háskólanum á Akureyri í tilefni 20 ára afmælis Lagadeildar skólans. Markmið málþingsins var að heiðra þau sem lögðu grunninn að velgengni deildarinnar.
Heiðursgestur á málþinginu var Mikael Karlsson, prófessor í heimspeki og fyrrverandi forseti Félagsvísinda- og lagadeildar skólans. Hann var einn margra sem flutti erindi – Um tilgang lagamenntunar. Í máli sínu kom Mikael inn á upphaf og fyrstu ár lagakennslu við skólann og þakkaði ýmsum þeirra framlag, sem sannarlega veitti ekki af því ekki hefðu allir hrifist af þeirri hugmynd að lögfræði yrði kennd við Háskólann á Akureyri.
Takk! Mikael Karlsson heiðursgestur á málþinginu og fyrrverandi forseti Félagsvísinda- og lagadeildar skólans þakkaði mörgum fyrir þeirra framlag við að koma kennslu í lögfræði í Háskólanum á Akureyri á koppinn. Á myndinni þakkar hann Ágústi Þór Árnasyni heitnum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var á meðal gesta og einnig gestur og flutti ávarp: Forsetinn og stjórnarskráin – sjö árum síðar.
Aðrir sem fluttu erindi voru Berglind Ósk Guðmundsdóttir, alþingismaður, Júlí Ósk Antonsdóttir, aðjúnkt við Lagadeild HA og landsréttarlögmaður, Birna Ágústsdóttir, sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur og blaðamaður, Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, stúdent í framhaldsnámi við Lagadeild HA, Ingólfur Friðriksson, deildarstjóri Evrópumála á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Rachael Lorna Johnstone, prófessor og deildarforseti Lagadeildar HA og Sara Fusco, doktorsnemi við Háskólann í Lapplandi og fyrrverandi LLM stúdent við HA.
Þá stjórnuðu bæði Rachael Lorna Johnston og Valgerður Guðmundsdóttir, lektor við Lagadeild, pallborðsumræðum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, ætlaði að taka þátt í afmælisþinginu en boðaði forföll.
Á málþinginu. Frá vinstri, Cristina Cretu, Sara Fusco, Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, Mikael Karlsson, Berglind Guðmundsdóttir, Aðalheiður Ámundadóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Ingólfur Friðriksson, Júlí Ósk Antonsdóttir, Rachael Lorna Johnstone og Valgerður Guðmundsdóttir.
Rachael Lorna Johnstone, prófessor og deildarforseti Lagadeildar HA, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur og blaðamaður og Sigurður Kristinsson prófessor við félagsvísindadeild HA.
Mikael Karlsson, heiðursgestur, Giorgio Baruchello, prófessor við félagsvísindadeild HA, Jürgen Jamin prestur kaþólskra á Akureyri og Tom Barry, verðandi forseti Hug- og félagsvísindasviðis HA.