Fara í efni
Fréttir

Hættir í bæjarstjórn eftir kjörtímabilið

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Akureyri, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs þegar kjörtímabilinu lýkur í júní 2022.

„Já, það liggur því fyrir að ég mun hætta í bæjarpólitíkinni í lok þessa kjörtímabils. Það, að ég sé að hætta í pólitík eftir kjörtímabilið, getur þó varla talist stórfrétt og er mér ekki efst í huga þessa dagana,“ sagði Guðmundur Baldvin þegar hann staðfesti ákvörðunina í samtali við Akureyri.net.

„Það er nóg um að vera í störfum okkar bæjarfulltrúa þessa dagana. Við erum nýbúin að samþykkja viðamiklar breytingar á stjórnsýslunni og vinna við fjárhagsáætlun stendur fyrir dyrum. Þessi verkefni sem og önnur sem ég var kjörinn til að sinna sem bæjarfulltrúi eiga því hug minn allan,“ segir hann. „Ég tel alls ekki tímabært á þessum tímapunkti að fara út í einhvers konar uppgjör á því hvernig til hefur tekist. Ég læt það bíða betri tíma, enda um ár eftir af kjörtímabilinu,“ sagði oddviti Framsóknarmanna.

„Ég sagði á sínum tíma að fjögur ár í bæjarpólitík væri of skammur tími, átta ár væri gott og 12 ár nóg – og nú er að síga á seinni hlutann af þessum 12 árum,“ sagði Guðmundur, sem er situr nú þriðja kjörtímabilið í bæjarstjórn. Hann var fyrst kjörinn bæjarfulltrúi árið 2010.