Hætta á snjóflóðum í Hlíðarfjalli næstu daga
Þrjú snjóflóð hafa fallið í Hlíðarfjalli á þessum sólahring og á Facebook síðu skíðasvæðisins er varað við mikilli hættu á snjóflóðum næstu daga. Skíðasvæðið er ekki opið en líkur á að einhverjir séu samt á ferðinni.
„Efra svæði er sérstaklega varhugavert! Veikt kristallalag hefur grafist, og gefur snjóþekjan eftir við lítið álag. Nýr vindpakkaður snjór er á svæðinu og þrjú flóð hafa fallið náttúrulega þennan sólarhring,“ segir á síðu Hlíðarfjalls.
„Sól og afbragðsveður er á svæðinu í dag og líklega margir sem hugsa sér hreyfings. Því er full ástæða til viðvörunar. Mikið vúmp er í gegnum alla snjóþekju. Snjóathugunarmenn og ofanflóðasérfræðingar eru að meta stöðuna áfram. Þetta á við um alla útivist, fjallaskíðun og skotveiði. Vandamálið er ekki bundið við Hlíðarfjall og ástæða að fara varlega í öllum snjóþungum bratta. Þessi póstur verður uppfærður. Takk og farið varlega!“ segir á Facebook síðu skíðasvæðisins fyrir um það bil klukkustund.
sadfsdf