Fara í efni
Fréttir

Hætt við innleiðingu nýja leiðakerfis SVA

Metanbíll frá Strætisvögnum Akureyrar. Mynd: Haraldur Ingólfsson
Áfram verður þjónusta Strætisvagna Akureyrar gjaldfrjáls fyrir notendur, en nýja leiðakerfinu frá 2021 hefur verið ýtt út af borðinu.
 
Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur ákveðið að ekki verði farið í innleiðingu á nýju leiðakerfi sem hafði verið samþykkt í júní 2021 en síðan frestað fram í ágúst 2022. Í bókun ráðsins segir að fyrir þessu séu nokkrar veigamiklar ástæður:
 
  1. Stofnkostnaður við innviði og fjölgun vagna í nýju kerfi er um 350 mkr. umfram það sem þarf í núverandi leiðakerfi.
  2. Árlegur rekstrarkostnaður í nýju leiðakerfi er talinn verða um 50-60 mkr. hærri en þar að auki eru vísbendingar um að kostnaður við mönnun vakta í nýju kerfi sé vanáætlaður.
  3. Talning farþega í vögnum undanfarna mánuði bendir til að nýting fari batnandi, sem er ánægjuefni.

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, segir að nú hafi verið tekið af skarið með að byggja áfram á núverandi leiðakerfi strætó, frekar en að innleiða nýtt kerfi sem unnið var að fyrir nokkrum árum. Nýja kerfið hefði kallað á talsverðan stofnkostnað og einnig aukinn árlegan rekstrarkostnað, þess vegna var ákveðið að gera frekar endurbætur á núverandi leiðakerfi.


Leið 5 að leggja af stað úr miðbænum inn í Innbæ, Naustahverfi, á Brekkuna út í Gilja-, Síðu- og Hlíðahverfi, þaðan niður á Eyri og aftur í miðbæinn. Þó nýja leiðakerfið verði ekki tekið upp mun núverandi kerfi taka breytingum vegna stækkandi byggðar og flutnings heilsugæslustöðvarinnar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
 

Fram kemur í bókuninni að núverandi leiðakerfi verði lagað að stækkandi byggð, svo sem í Móahverfi og Holtahverfi, en jafnframt að breyttum þörfum, svo sem með auknum akstri við Sunnuhlíð vegna flutnings heilsugæslustöðvarinnar þangað. Þá er einnig ætlunin að kanna áfram möguleika á að flétta frístundaakstur barna inn í reglubundinn akstur strætisvagna eftir hádegi á virkum dögum.

Jafnframt samþykkti ráðið að marka þá stefnu að reka áfram á Akureyri öfluga og gjaldfrjálsa þjónustu strætisvagna, á grundvelli núverandi leiðakerfis,“ eins og segir í bókun þess frá 4. júlí.

Rafmagnsvagnar vegna skorts á metani

Einnig kemur fram í bókun ráðsins að keyptir verði tveir nýir rafknúnir strætisvagnar til að endurnýja vagnaflotann á næstu 2-3 árum og byggðir upp innviðir fyrir hleðslu þeirra. Þó kunni að vera nauðsynlegt að kaupa í millitíðinni annan notaðan díselvagn til að brúa bilið. Eins áður hefur komið fram í umfjöllun hér á Akureyri.net er skortur á metani og kemur fram í bókun umhverfis- og mannvirkjaráðs að ekki sé nægilegt framboð á metani í landinu til að fjölga vögnum sem ganga fyrir metani.