Fara í efni
Fréttir

Hængsmenn styrkja Grófina um milljón

Jóhannes Valgeirsson, formaður Hængs, Inga María Ellertsdóttir, stjórnarformaður Grófarinnar og Sigurjón Þórsson varaformaður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri styrkti Grófina – geðrækt í dag um eina milljón króna. Um er að ræða afrakstur Herrakvölds klúbbsins sem haldið var á dögunum. 

Inga María Ellertsdóttir, stjórnarformaður Grófarinnar, segir féð sannarlega koma í góðar þarfir og svo sé reyndar um alla fjármuni sem Grófinni áskotnist; allt skipti máli enda verkefnin mörg og þörfin mikil. Hún segir aðsókn hafa aukist mjög undanfarið.

„Margir eru að komast á skrið eftir mikla félagslega einagrun og margir eru búnir að upplifa rosalega mikinn kvíða,“ sagði hún við Akureyri.net um Covid tímann. „Svo held ég að margir séu að uppgötva Grófina, átta sig á því að hún sé öllum opin og gjaldfrjáls. Við höfum líka verið að auka tengsl okkur í samfélagið,“ segir hún og nefnir til dæmis Háskólann á Akureyri, Starfsendurhæfinguna, geðheilsuteymið á Heilsugæslustöðinni, Virkið ungmennahús og Pieta samtökin í því sambandi.