Hækkanir bæjarins árás á kaupmátt launafólks
Anna Júlíusdóttir, formaður verkalýðsfélagsins Einingar - Iðju, gagnrýnir bæjaryfirvöld á Akureyri harðlega vegna fyrirhugaðra hækkana gjaldskrár Norðurorku og hækkunar á sorphirðugjöldum um áramótin.
Anna segir, í grein sem birtist á Akureyri.net í dag, að í stað samráðs, sem lofað hafi verið, standi nú eftir „sársaukafullt svik á trausti launafólks. Í stað samtals og samráðs virðast vera að raungerast víðtækar gjaldskrárhækkanir sem eru hrein árás á kaupmátt launafólks.“
Hún heldur áfram: „Staðreyndirnar eru sláandi. Á meðan verkalýðshreyfingin sýndi ábyrgð með því að ganga að 3,5% launahækkun í þágu stöðugleika, ætla Norðurorka og Akureyrarbær sér að hækka gjaldskrár langt umfram allar eðlilegar forsendur. Hitaveitan hækkar um 7,5%, rafveitan um 9,2%, vatnsveitan um 5,2% og fráveitan um heilar 11,2%. Ofan á þetta bætast svo sorphirðugjöld sem eiga að hækka um ótrúlegar 57,4%, líklegast afsakað í nafni kerfisbreytinga.“
„Kjarabót verður í raun kjaraskerðing“
„Setjum þetta í samhengi við raunveruleika venjulegs launafólks. Sá sem er með 600.000 krónur á mánuði fær 21.000 króna launahækkun fyrir skatt samkvæmt kjarasamningum, eða um 13-14.000 krónur eftir skatta. Á móti koma hækkanir á grunnþjónustu upp á rúmar 5.000 krónur á mánuði og þá er ekki tekið tillit til annarra verðhækkana sem munu óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið. Það sem átti að vera kjarabót verður í raun kjaraskerðing,“ segir formaður Einingar - Iðju.
Smellið hér til að lesa grein Önnu