HA fjölmennari næsta vetur en nokkru sinni?
Háskólanum á Akureyri bárust tæplega 2.000 umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár. Þrátt fyrir að umsóknum hafi fækkað um 13% á milli ára má gera ráð fyrir því að í haust verði Háskólinn fjölmennari en nokkru sinni áður, að því er segir á heimasíðu skólans: „Stúdentar eru að skila sér vel á milli námsára og við bætist fagnámið fyrir sjúkraliða ásamt fjölgun um 20 pláss í hjúkrunarfræði,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, á heimasíðu skólans.
86 sóttu um 20 pláss
„Sérstaka ánægju og athygli vekur hve margar umsóknir bárust í Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða þar sem alls bárust 86 umsóknir. Námsleiðin er ný og verður í fyrsta skipti í boði á komandi haustmisseri. Einungis verður hægt að bjóða 20 umsækjendum skólavist en þessa dagana er unnið að því að fara yfir umsóknir og munu umsækjendur fá bréf síðar í mánuðinum,“ segir á vef skólans. „Margir hafa beðið lengi eftir að þetta nám verði að veruleika. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá þennan áhuga á náminu. Eftirvæntingin er mikil innan háskólans, hjá forsvarsmönnum Sjúkraliðafélagsins og í samfélaginu fyrir náminu. Við hlökkum mikið til haustsins þegar við tökum á móti fyrstu nemendum á kjörsviði öldrunar- og heimahjúkrunar,“ segir Hafdís Skúladóttir, brautarstjóri Fagnáms sjúkraliða.
Nánar hér á heimasíðu Háskólans á Akureyri.