Fara í efni
Fréttir

Guðlaugur ráðinn til Húsheildar – Hyrnu

Guðlaugur Arnarsson, til vinstri, nýráðinn framkvæmdastjóri Húsheildar - Hyrnu, og Ólafur Ragnarsson, eigandi fyrirtækisins.

Guðlaugur Arnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Húsheildar – Hyrnu á Akureyri.  „Þetta er gríðarlega spennandi fyrirtæki og mjög spennandi tímar framundan, það eru mikil tækifæri í þessum geira,“ segir Guðlaugur við Akureyri.net.

Þessi þekkti byggingaverktaki er með mörg járn í eldinum víða um land, sér til dæmis um byggingu nýrrar álmu flugstöðvarinnar á Akureyri sem fer á fullt í næsta mánuði og á að vera tilbúin um áramót. „Verkefnin eru mjög fjölbreytt; við erum í nýframkvæmdum í Hulduholti á Akureyri, erum að byggja heilsugæslu á Höfn á Hornafirði, þjóðgarðsmiðstöð í Vatnajökulsþjóðgarði og erum með opinber verkefni um allt land, brúarsmíði og fleira. Svo erum við með innréttingaverkstæði hér á Akureyri,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur, sem er félags- og viðskiptafræðingur – og auk þess kunnur handboltamaður og þjálfari – starfaði sem viðskiptaþróunarstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu undanfarin tvö og hálft ár og var deildarstjóri á fyrirtækjasviði Vodafone sex þar á undan. „Þetta var of spennandi tækifæri til að stökkva ekki á vagninn,“ segir hann um ráðninguna til Húsheildar – Hyrnu.

Ólafur Ragnarsson stofnaði verktakafyrirtækið Húsheild ehf. árið 2007 og keypti byggingafélagið Hyrnu á Akureyri í árslok 2021.