Fara í efni
Fréttir

Guðjón formaður FF: „Skýrslan full af falsi“

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara á fundinum á Akureyri í dag. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Formaður Félags framhaldsskólakennara segir stöðuna í menntamálum einfaldlega þannig að íslensk stjórnvöld ætli ekki að standa að baki eigin menntastefnu, þau ætli ekki að fjármagna eflingu starfsnáms og ætli ekki að fjármagna aukna farsæld í skólastarfinu. Þetta sagði hann á samstöðufundi sem haldinn á Akureyri í dag.

Yfir 2.600 í hóp á Facebook, yfir 3.200 undirskriftir

Viðbrögð við áformum mennta- og barnamálaráðherra um að sameina framhaldsskólana á Akureyri, MA og VMA, hafa verið sterk, eins og til dæmis má sjá á fréttum og greinum hér á Akureyri.net.

Strax sama kvöld og ráðherra kynnti þessi áform stofnaði Jan Eric Jessen, stúdent frá MA 2008, Facebook-hópinn Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA. Nú eru yfir 2.600 manns í hópnum og þar hafa margir meðlimir deilt skoðunum sínum á málinu og mörgum greinum verið deilt.

Þegar þetta er ritað hafa 3.278 manns skráð sig á undirskriftalista á island.is þar sem skorað er á ráðherra að falla frá áformum um sameiningu MA og VMA. Undirskriftalistinn er virkur til 15. september.

Jan Eric og fleiri sem að hópnum standa boðuðu til opins fundar á Akureyri í dag með það að markmiði að ræða með hvaða hætti best sé fyrir þann stóra hóp sem stendur gegn sameiningunni að beita sér gegn henni.

Fundinum var streymt í gegnum áðurnefndan hóp á Facebook og er upptaka af fundinum aðgengileg þar.

Skólameistarar undir hæl ráðherra

Meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum í dag var Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara. Hann kvaðst skekinn af þeim tíðindum sem sem voru í brennidepli á fundinum, það er að ráðherra menntamála ætlaði að sameina skólana.

Hann bað fundarmenn að ímynda sér þá stöðu sem skólameistarar MA og VMA væru í þar sem þau væru undir hæl ráðherra, ættu bara að standa sig og þeim ætlað að hanna nýjan skóla frá grunni á tveimur mánuðum.


Um 70-80 manns sóttu fundinn í dag og ríflega 100 fylgdust með honum í beinu streymi á Facebook. Upptakan er áfram aðgengileg í samstöðuhópnum. 

Ætla ekki að standa að baki eigin menntastefnu

Staðan er bara einfaldlega þannig að ríkið, íslensk stjórnvöld, ætla ekki að standa að baki eigin menntastefnu. Þau ætla ekki að fjármagna eflingu starfsnáms og þau ætla ekki að fjármagna aukna farsæld í skólastarfinu,sagði Guðjón Hreinn í upphafi ávarps síns í dag. Hann lagði áherslu á að hann væri talsmaður allra framhaldsskólakennara í landinu.

„Staðan er bara einfaldlega þannig að ríkið, íslensk stjórnvöld, ætla ekki að standa að baki eigin menntastefnu. Þau ætla ekki að fjármagna eflingu starfsnáms og þau ætla ekki að fjármagna aukna farsæld í skólastarfinu. Þetta er bara niðurstaðan.“

Guðjón Hreinn sagði menntamálaráðuneytið með stefnu sinni og áherslum hafa lagt upp í ákveðna vegferð, en ráðherra fái ekki fjármagn til þess hjá íslenskum stjórnvöldum. „Þetta er bara ljót staða og síðan bregst ráðuneyti menntamála þannig við að það býr til hér einhverja sýndarmennsku um eflingu skólastarfs á Akureyri. Skýrslan sem notuð er til grundvallar er full af falsi,” sagði Guðjón Haukur og sagði að þetta væri staða sem fólk ætti einfaldlega ekki að sætta sig við.

Hér á að skafa fjármuni innan úr kerfinu

Hann sagði skýrsluna einnig bera í sér ákveðin skilaboð til allra framhaldsskóla í landinu. Hér á bara miskunnarlaust að skera niður, sækja sér peninga til að fjármagna verkefnið sem til stendur, sem á að heita efling starfsnáms og aukin farsæld. Þetta á að gera með því að skafa fjármuni innan úr kerfinu og það verður einsleitara fyrir vikið.Guðjón sagði jafnframt að framhaldsskólakerfið væri á leiðinni að verða fátækara en það er núna, það sé staðreynd og megi greinilega lesa út úr skýrslunni.

Guðjón Hreinn fór einnig út í aðferðafræðina, eins og fleiri sem tóku til máls á fundinum í dag. Að búa til einhvers konar aðferðafræði ofan frá um það hvernig á að gera þetta er eins mikið virðingarleysi gagnvart fagstéttunum sem vinna í skólunum og hægt er,sagði hann og benti á þá stöðu sem skólameistarar MA og VMA, og reyndar allir skólameistarar í landinu, væru núna: Að eiga að hanna nýjan skóla frá grunni nánast á tveimur mánuðum. Þetta getur enginn gert. Þau eru bæði undir hæl ráðherra og eiga bara að standa sig,” sagði Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.

  • Áfram verður fjallað um þetta mál hér á Akureyri.net og ýmislegt sem fram kom í máli þeirra sem tóku til máls á fundinum.