Grípum inn í! Málþing um hatursorðræðu og ofbeldi
Málþingið Grípum inn í! verður haldið í menningarhúsinu Hofi síðdegis á morgun, fimmtudag 10. nóvember. Þar verður, eins og segir í tilkynningu, „fjallað um hatursorðræðu og ofbeldi sem verið hefur áberandi meðal barna og ungmenna að undanförnu. Vandinn er umfangsmikill og flókinn og nauðsynlegt er að allir taki ábyrgð. Með samhentu átaki geta íbúar Akureyrar gripið inn í stöðuna og um leið búið til öruggara og betra samfélag fyrir börn og ungmenni.“
Málþingið hefst klukkan 16.30 og á að standa í tvær klukkustundir. Fluttir verða fjórir örfyrirlestrar og einnig verða pallborðsumræður. Fyrirlesarar eru fagfólk á sínu sviði sem tengist allt á einhvern hátt málefnum barna og ungmenna. Málþingið er öllum opið og eru foreldrar og forsjáraðilar barna og ungmenna sérstaklega hvattir til að mæta.
Dagskráin er sem hér segir:
- Ýta samfélagsmiðlar undir hatursorðræðu? – Skúli B. Geirdal, fjölmiðlafræðingur og verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Hvað sjá börn og ungmenni á Íslandi á netinu sem getur ýtt undir hatur, einelti og ofbeldi? Leitað verður svara við spurningunni um leið og niðurstöður úr víðtækri rannsókn á stafrænu umhverfi barna á Íslandi sem nefnist „Börn og netmiðlar“ verða kynntar. Þá verður einnig litið á virkni algóritma og áhrif þeirra á umræðuna á netinu.
- Birtingarmyndir haturstjáningar á Íslandi – Eyrún Eyþórsdóttir, lektor við Hug-og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.
- Hatur, ofbeldi og fordómar í garð hinsegin barna og unglinga – hvað ætlum við að gera? – Hrefna Þórarinsdóttir, Forstöðukona í Hinsegin félagsmiðstöðinni.
- Starfsaðferðir hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra vegna afbrota og/eða áhættuhegðunar ósakhæfra barna –Silja Rún Reynisdóttir, Forvarnarfulltrúi Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Silja fjallar um verklagsreglur sem lögreglan hefur sett í gang á Norðurlandi eystra vegna afbrota og/eða áhættuhegðunar ósakhæfra barna. Einnig tengir hún það við málefni líðandi stunda.
Smellið hér til að fara á Facebook síðu viðburðarins.