Gríðarlegur kynjahalli í bekkjaráðum skólanna
Mikið hefur verið rætt um hina svokölluðu ‘Þriðju vakt’ síðustu misseri. Á heimasíðu VR er ágæt samantekt um það hvað þriðja vaktin er:
„Ólaunuð ábyrgð, yfirumsjón og verkstýring á heimilis- og fjölskylduhaldi er gjarnan kölluð þriðja vaktin eða hugræn byrði (e. mental load). Ósýnileg verkefni sem eru vanmetin og jafnvel álitið sjálfsagt að konur sinni frekar en karlar. Enda fellur þriðja vaktin, þessi hugræna byrði, margfalt þyngra á konur þótt þær séu í sambandi (með karli) eða í fullri vinnu.“ - www.VR.is
Foreldraráð og bekkjarráð
Sem dæmi um verkefni sem gjarnan falla undir þriðju vaktina er að bjóða sig fram og starfa í hinum ýmsu ráðum sem tengjast náms- og tómstundalífi barnanna. Til dæmis foreldraráð í íþróttafélaginu sem barnið æfir hjá eða bekkjarráð í grunnskóla barnsins.
Bekkjarráðin í grunnskólum bæjarins skoðuð
Til þess að varpa ljósi á stöðu mála á Akureyri, fór blaðamaður á veraldarvefinn og sótti upplýsingar á heimasíður grunnskólanna. Þar á að vera hægt að nálgast lista yfir þá foreldra sem sitja í bekkjarráðum. Glerárskóli og Oddeyrarskóli voru með listana sína á reiðum höndum, en blaðamaður óskaði eftir listum frá hinum skólunum í gegnum tölvupóst. Svör með tölum bárust frá Lundarskóla og Síðuskóla. Þar með eru þessir fjórir skólar með í talningunni. Frá Naustaskóla bárust þau skilaboð að erfitt reyndist að manna bekkjarráðin en aðeins hefðu konur boðið sig fram hingað til. Engar tölur fylgdu með, þannig að þær konur eru ekki með í talningunni fyrir þessa grein.
Töluverður munur
Það kom í ljós að talning á bekkjarráðsmeðlimum síðasta skólaárs og þess sem er að hefjast núna sýndi töluverðan mun. 251 kona var á lista, en 74 karlar.
251 kona og 74 karlar í bekkjarráðum grunnskóla Akureyrar 2022-2024. / grafík: Rakel Hinriksdóttir
Konur í dag vinna ekki síður í fullu starfi heldur en karlar, og vinnan sem fer í að sitja í bekkjarráði eða foreldraráði í íþróttafélaginu leggst þá ofan á það. Oft er um að ræða að hittast utan vinnutíma til þess að skipuleggja bekkjarkvöld eða keppnisferðalög, ef til vill fjáraflanir og annað í þeim dúr. Í raun vinna sem ætti ekki endilega að henta einu kyni betur en öðru.
Bók um þriðju vaktina
Átak VR sem vitnað er í í upphafi greinarinnar var unnið í samstarfi við hjónin Huldu Tölgyes sálfræðing og Þorstein V. Einarsson kynjafræðing sem meðal annars heldur úti Instagram reikningnum ‘Karlmennskan’. Þau hafa skrifað bók um málið sem kallast ‘Þriðja vaktin - Jafnréttishandbók heimilisins’. Bókin er væntanleg.
Bókin ‘Þriðja vaktin’ eftir Huldu Tölgyes og Þorstein V. Einarsson. Myndskreytt af Elíasi Rúna.