Grenivíkurvegur hefur verið opnaður
Grenivíkurvegur hefur verið opnaður fyrir almenna umferð eftir að Vegagerðin lauk hreinsunarstörfum í bili.
Vegurinn hefur verið lokaður síðan að morgni fimmtudags, eftir að stór aurskriða féll á hann skammt innan við Fagrabæ. Á umræddum vegarkafla hefur verið komið upp aðvörunarskiltum þar sem óhreinindi eru enn á veginum eftir aurskriðuna.
Lögreglan hvetur vegfarendur að fara varlega á umræddum kafla og aka frekar um svæðið í dagsbirtu en myrkri. Ef frekari skriðuföll verða er meiri hætta á að ekið sé inn í skriðuna í myrkri.
„Einnig viljum við beina því til fólks að stoppa alls ekki á skriðusvæðinu til að taka myndir eða svala forvitninni. Það eykur bara hættu og getur truflað aðra umferð. Farið varlega en akið hiklaust í gegn,“ segir á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Ef vegfarendur verða varir við fleiri aurskriður eða annað óvenjulegt á leið sinni um veginn, eru þeir beðnir um að láta vita af því með því að hringja í 112