Fara í efni
Fréttir

Greip fram í þegar hún hafði ekki orðið

Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu-og lýðheilsuráðs Akureyrar, hafnar því að hafa útilokað formann verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju á fræðslufundi á Microsoft Teams fjarskiptaforritinu um breytingar á gjaldskrá leikskóla á þriðjudaginn. Þetta kemur fram í frétt á Vísi í kjölfar fréttar Akureyri.net fyrr í dag.

Heimir hefur ekki svarað beiðni Akureyri.net um viðbrögð en á Vísi segir að Anna hafi ætlað að halda einræðu á fundinum og þess vegna verið skrúfað fyrir hljóðið.

„Þetta var upplýsingafundur og fyrirspurnir voru leyfðar. Síðan var bara fyrirspurn í gangi og þá grípur hún fram í og átti ekki orðið. Ég bað hana mjög kurteisislega um að leyfa þeim að klára sem áttu orðið og hún virti það ekki og þess vegna var hún mjútuð,“ segir Heimir við Vísi.

Hann hafnar því að stemningin á fundinum hafi verið þung og erfið, líkt og Anna lýsir í frétt Akureyri.net. Fundurinn hafi verið góður og upplýsandi. „Ég get reyndar ekki áttað mig á því að hún hafi vitað hvernig hinum 250 hafi liðið í gegnum Teams,“ segir Heimir. 

Hann segir vissulega skoðanir á þeim breytingum sem kynntar voru í gær en viðbrögð hafi verið „gríðarlega jákvæð“ eftir að fólk fékk allar útskýringar.

Frétt Vísis