Fara í efni
Fréttir

Gránaði í fjöll í Eyjafirði í nótt

Hlíðarfjall í dag. Ekki er ástæða fyrir skíðamenn að leita strax að græjunum en þeir geta farið að láta sig dreyma. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Gránað hafði í fjöll þegar Akureyringar lyftu höfði af kodda í morgun. Líklega má telja þetta fyrsta merki um að haustið er í nánd eða ef til vill þegar komið, eftir fádæma gott sumar. Nokkuð hlýtt verður reyndar í veðri í vikunni og þessi fáeinu, gráu sýnishorn gæti tekið upp von bráðar, jafn hratt og þau birtust. Töluverðri rigningu er spáð í kvöld, á morgun á hiti að fara í 17 stig, 14 á þriðjudaginn, 13 á fimmtudag og 16 á föstudag. Ekki kæmi því á óvart að Hlíðarfjall yrði komið í sumarklæði á ný fyrr en varir.