Fara í efni
Fréttir

Grafið fyrir fyrstu húsunum í Móahverfi

Myndir: Helgi Steinar Halldórsson

Framkvæmdir við Lækjarmóa 2-8 í nýju Móahverfi ofan Síðuhverfis eru hafnar. Þar reisir verktakinn SS Byggir fjögur fjölbýlishús með 72 íbúðum. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjarí dag og meðfylgjandi myndir Helga Steinars Halldórssonar eru birtar með.

Í Móahverfi verða um 1.100 íbúðir og reiknað með að íbúar verði um 2.400. Nú þegar hefur 11 lóðum fyrir um 270 íbúðir verið úthlutað og senn verður birt auglýsing um úthlutun rað-, par- og einbýlishúsalóða vestast og efst í hverfinu.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs, segist skynja mikinn áhuga á því að taka þátt í uppbyggingu á Akureyri og að hröð uppbygging á nýjum íbúðahverfum á undangengnum árum sé til vitnis um það.

„Eftirspurn eftir nýju íbúðahúsnæði hefur verið meiri en framboðið hér á Akureyri eins og víða annars staðar í fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Uppbyggingu lýkur brátt í Hagahverfi og Holtahverfið er óðum að rísa. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður eftirsótt að búa og eignast húsnæði í Móahverfi því skipulag hverfisins er metnaðarfullt og stutt í alla þjónustu,“ segir Halla Björk Reynisdóttir á vef Akureyrarbæjar.